spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÁfrýjanir eftir augnpot - skila þær árangri?

Áfrýjanir eftir augnpot – skila þær árangri?

Ítrekað var potað í augu Gunnars Nelson í bardaga hans gegn Santiago Ponzinibbio. Hugsanlega mun Gunnar Nelson og hans lið áfrýja tapinu en hversu líklegt er að áfrýjunin muni skila árangri?

Til að svara þeirri spurningu kíkjum við á nokkur dæmi þar sem bardagamenn hafa reynt að áfrýja tapi eftir pot í auga.

Nýlegasta fræga dæmið er bardagi Matt Mitrione og Travis Browne. Sá bardagi fór fram í Boston þann 17. janúar 2016. Þar var tvisvar potað í hægra auga Matt Mitrione, fyrst í lok 1. lotu og svo á fyrstu mínútu 2. lotu. Dómarinn gerði hlé á bardaganum í bæði skiptin en tók ekki stig af Browne þrátt fyrir að hafa framið sama brotið tvisvar.

Í 3. lotu náði Browne þungri beinni hægri rétt fyrir ofan hægra auga Matt Mitrione. Augað hans stokkbólgnaði og leit hræðilega út. Browne náði fellu síðar í lotunni og kláraði Mitrione með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Matt Mitrione eftir bardagann gegn Travis Browne.

Mitrione áfrýjaði tapinu til íþróttasambands Massachusetts (Massachusetts Sate Athletic Commission, MSAC). „Ég er með sterkt mál fyrir höndum. Ég veit að það gerist oft ekkert þegar menn áfrýja þrátt fyrir að vera með sterkt mál. Það er algjört kjaftæði. Íþróttasamböndin eru stolt af sínu starfi og hverja þau ráða inn en þau telja sig ekki ábyrg fyrir svona mistök,“ sagði Mitrione eftir bardagann.

Mitrione sagði einnig að dómarinn hefði sagt sér að hætta að stökkva á puttana hans Browne í stað þess að taka stig af honum. Mitrione vildi fá Browne dæmdan úr leik (e. disqualification) enda höfðu potin veruleg áhrif á hans frammistöðu í bardaganum. Mitrione tapaði áfrýjuninni og var tapinu ekki breytt.

Francisco Rivera fær putta í augað frá Urijah Faber.

Þann 6. desember 2014 mættust þeir Urijah Faber og Francisco Rivera. Rivera gekk mjög vel til að byrja með og vann 1. lotuna að öllum líkindum. Eftir rúma mínútu í 2. lotu potar Faber í auga Rivera. Rivera snýr undan, heldur fyrir augað en dómarinn taldi að hann væri vankaður eftir högg. 17 sekúndum eftir augnpotið tappar Rivera út eftir hengingu. Um leið og bardaginn kláraðist hélt Rivera fyrir augað og fann augljóslega til í auganu. Rivera þurfti síðar að fara í aðgerð á auganu eftir bardagann.

Rivera áfrýjaði tapinu og fór fram á að bardaginn yrði dæmdur ógildur. Áfrýjunin var felld niður og hélt Faber sigrinum. Bardaginn fór fram í Nevada fylki og hélt íþróttasamband Nevada (Nevada State Athletic Commission, NSAC) því fram að dómarinn Mario Yamasaki hefði ekki séð brotið og því væri ekki um mistúlkun á reglunum að ræða.

Eitt allra versta dæmið um augnpot var í bardaga Kevin Burns og Anthony Johnson í júlí 2008. Burns potaði þrívegis í auga Johnson áður en fjórða potið gerði Johnson ófæran um að halda áfram að berjast. Fjórða potið átti sér stað í þriðju lotu og fylgdi Burns potinu eftir með upphöggi. Johnson lagðist strax niður og öskraði af sársauka.

Við fyrstu sýn hefði mátt halda að upphöggið hefði vankað Johnson. Endursýningin sýndi hins vegar að Burns hitti ekki með upphögginu. Dómarinn Steve Mazzagati gat ekki séð atvikið aftur í endursýningu og var Kevin Burns því úrskurðaður sigurvegari eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu!

Johnson reyndi að áfrýja niðurstöðunni en var hafnað vegna skorts á úrræðum (e. based on advice from the Nevada Attorney General’s office, the appeal was rejected due to lack of remedy). Johnson þurfti að gangast undir aðgerð á auganu og Mazzagati baðst síðar afsökunar á mistökum sínum. Tapið hélt sér og er þetta enn skráð sem tæknilegt rothögg á ferli Johnson.

Þann 13. júní 2009 mættust þeir Mostapha Al-Turk og Mirko ‘Cro Cop’ Filipovic í Þýskalandi. Cro Cop kýldi Al-Turk niður og virtist vera nálægt því að klára bardagann. Al-Turk komst aftur á fætur og Cro Cop hóf aftur að sækja á vankaðan Al-Turk. Þegar hann sótti aftur potaði hann óvart í augað á Al-Turk sem hélt strax fyrir andlitið og snéri baki í Cro Cop. Cro Cop hélt áfram að kýla Al-Turk og taldi dómarinn að Al-Turk væri vankaður eftir högg og stöðvaði bardagann skömmu síðar. Í endursýningunni sást hins vegar þegar Cro Cop potaði í augað á Al-Turk en það var ekki fyrr en eftir bardagann.

Mostapha Al-Turk
Mostsapha Al-Turk fær putta frá Cro Cop.

Bardaginn fór fram í Þýskalandi en þar er ekkert íþróttasamband fyrir MMA eins og gengur og gerist í flestum ríkjum Bandaríkjanna (NSAC, MSAC o.s.fr.) sem sér um að allt fari eðlilega fram. UFC er í raun íþróttasambandið (e. commission) í slíkum löndum og sjá bardagasamtökin um að ráða dómara og lækna og þess háttar. Vanalega eru það íþróttasamböndin sem sjá um slík mál. Ekkert slíkt íþróttasamband fyrir MMA er í Skotlandi og því var UFC að sjá um reglumálin um síðustu helgi.

Al-Turk ætlaði að áfryja úrslitum bardagans en Marc Ratner, yfirmaður reglumála í UFC, sagði að það væri í raun tímasóun. „Þetta er mjög einfalt. Dómarinn sá ekki brotið. Þið eruð að biðja um að brotið verði kannað þegar bardaganum er lokið. Ef dómarinn hefði séð fingurinn pota í augað og stöðvað bardagann strax hefði Al-Turk geta fengið fimm mínútur til að jafna sig. Ef hann hefði ekki getað haldið áfram eftir þann tíma hefði bardaginn verið dæmdur ógildur (e. no contest). Í öllum íþróttum er ekki hægt að breyta ákvörðun dómara sem sér ekki atvikið. Þetta er eitt af því sem gerist en enginn sá þetta fyrr en í endursýningunni.“

Fyrrnefndur Marc Ratner var í Skotlandi um helgina og sá um að allt færi eðlilega fram en hann er ennþá yfirmaður reglumála í UFC.

Miðað við söguna má segja að það sé ekki líklegt að áfrýjun muni skila nokkru. Eins og áður segir hefur Gunnar Nelson og hans lið ekki tekið ákvörðun um hvort niðurstöðu bardagans verði áfrýjað.

Í nýju reglunum sem tóku í gildi 1. janúar 2017 á að taka hart á poti í augað. Að margra mati væri eðlilegast ef bardaginn yrði dæmdur ógildur (e. no contest) en það virðist ekki líklegt miðað við söguna. Það gæti verið von ef setja ætti fordæmi núna þar sem hart verði tekið á málunum ef verið sé að pota í augun á andstæðingunum.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Heimildir:

Bloody Elbow

MMA Junkie

MMA Fighting

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular