UFC lét tvö stór nöfn í þungavigtinni fara í gær. Þeir Junior dos Santos og Alistair Overeem voru leystir undan samningi við UFC í gær.
Junior dos Santos er fyrrum þungavigtarmeistari UFC en hefur átt erfitt uppdráttar. Hann hefur tapað fjórum bardögum í röð og það allt eftir rothögg.
Dos Santos, 37 ára, kom inn í UFC árið 2008 og vann fyrstu átta bardaga sína í UFC. Hann varð þungavigtarmeistari árið 2011 en tapaði beltinu til Cain Velasquez ári síðar. Hann fékk tvívegis titilbardaga eftir það en mistókst að ná beltinu í bæði skiptin. Um tíma átti hann misjöfnu gengi að fagna en vann þrjá bardaga í röð frá 2018 til 2019 áður en núverandi taphryna hófst.
Hinn fertugi Alistair Overeem var einnig látinn fara í gær en hann átti töluvert betra gengi að fagna á síðustu árum heldur en dos Santos. Overeem vann fjóra af síðustu sex bardögum sínum en síðast sáum við hann tapa fyrir Alexander Volkov í febrúar.
Overeem hefur unnið marga stóra titla á ferlinum og dreymdi um að ná UFC beltinu áður en ferlinum væri lokið. Overeem fékk titilbardaga gegn Stipe Miocic árið 2016 en tapaði með rothöggi í 1. lotu. Honum tókst ekki að fá annan titilbardaga og þarf nú að finna sér nýja vinnuveitenda.
UFC hefur verið að fækka bardagamönnum sínum og höfum við sé þekkt nöfn á góðum samningnum yfirgefa UFC á borð við Yoel Romero, Anthony Pettis og nú dos Santos og Overeem.