0

Israel Adesanya hlær að nýjustu afsökun Paulo Costa

Israel Adesanya hló að ummælum Paulo Costa og nýjustu afsökun hans eftir tapið í fyrra. Costa segist hafa drukkið of mikið kvöldið fyrir bardagann.

Israel Adesanya sigraði Paulo Costa með miklum yfirburðum þegar þeir mættust í september í fyrra. Á dögunum birti Costa myndband á Youtube rás sinni þar sem hann sagðist hafa drukkið of mikið kvöldið fyrir bardagann.

Bardaginn fór fram í Abu Dhabi og var snemma á sunnudagsmorgni á staðartíma. Costa þurfti því að vakna kl. 5 til að mæta í höllina og berjast kl. 9. Costa átti erfitt með svefn kvöldið fyrir bardagann og ákvað að fá sér eitt rauðvínsglas til að hjálpa sér að sofna. Þegar það gekk ekki fékk hann sér annað glas og endaði á að drekka heila rauðvínsflösku kvöldið fyrir bardagann.

Costa sagðist hafa verið fullur eða þunnur í bardaganum gegn Adesanya og þess vegna hafi honum gengið svona illa. Hann hafi aðeins sýnt í 10-20% af sinni getu í bardaganum og segir að hann hefði átt að fresta bardaganum.

Adesanya hló að ummælum Costa. „Það er fyndið. Ég hef gert ýmislegt fyrir mína bardaga þar sem ég lærði af mistökunum mínum. En ég kláraði samt verkið en greinilegt að sumir geta ekki þennan lífstíl,“ sagði Adesanya við MMA Junkie.

Costa hefur reynt að fá annan bardaga við Adesanya eftir tapið þar sem hann var ósáttur með framkomu Adesanya eftir bardagann. Costa mætir Robert Whittaker í apríl og verður það fyrsti bardagi hans eftir tapið gegn Adesanya.

„Það besta sem Costa getur gert er að meðtaka tapið. Hann var flengdur. Hann er ennþá að reyna að koma með allar þessar afsakanir og það mun bara gera honum verra til lengri tíma litið. Egóið hans höndlar ekki þá staðreynd að hann var rassskelldur illa af horuðum trúði.“

„Kyngdu stoltinu, lærðu af þessu og reyndu að breyta þínum leik til hins betra. Þú munt aldrei komast langt í lífinu eða í MMA ef þú notar þessar afsakanir,“ sagði Adesanya að lokum.

Israel Adesanya mætir Jan Blachowicz um helgina í léttþungavigt. Hann getur orðið tvöfaldur meistari í UFC með sigri.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.