Thursday, April 18, 2024
HomeErlentAnderson Silva býst við að næsti bardagi verði hans síðasti

Anderson Silva býst við að næsti bardagi verði hans síðasti

Talið er að næsti bardagi Anderson Silva verði hans síðasti. Hinn 45 ára gamli Silva mætir Uriah Hall í október.

Goðsögnin Anderson Silva hefur ekki átt góðu gengi að fagna í búrinu síðan hann tapaði titlinum árið 2013. Silva segist ennþá hafa gaman af þessu en aðeins einn sigur í síðustu átta bardögum talar sínu máli.

„Hugsanlega verður þetta síðasti bardaginn minn. Þess vegna er ég að æfa svona vel á hverjum degi og gera mitt allra besta. Allir vilja hjálpa mér. Ég er mjög spenntur því að ég held að þetta verði mín síðasta frammistaða í búrinu fyrir aðdáendur mína. Við sjáum til,“ sagði Silva í viðtali við ESPN.

Dana White, forseti UFC, sagði síðan á dögunum að þetta væri síðasti bardaginn hjá Anderson Silva.

Silva mætir Uriah Hall þann 31. október í aðalbardaga kvöldsins. Silva og Hall áttu að mætast á UFC 198 árið 2016 en Silva þurfti að hætta við bardagann eftir veikindi.

Silva vildi mest fá bardaga við Conor McGregor eða Anthony Pettis en var ánægður að fá Uriah Hall. Hall var oft líkt við Silva þegar hann kom fyrst í UFC eftir ótrúleg rothögg sín en hefur ekki staðið undir væntingum.

Það verður áhugavert að sjá hvort Silva standi við stóru orðin en hann ætlar sér að ljúka ferlinum með sigri.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular