spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentAnthony Pettis: Líkaminn gaf sig

Anthony Pettis: Líkaminn gaf sig

Anthony Pettis mun ekki fá beltið um mittið ef hann vinnur Max Holloway í kvöld. Pettis náði ekki vigt í gær og gat hann ómögulega skorið meira niður.

Anthony Pettis var þremur pundum yfir á vigtinni í gær. Í samtali við Ariel Helwani hjá MMA Fighting eftir vigtunina segist Pettis hafa verið 153 pund (69,4 kg) þegar hann kom til Toronto fyrr í vikunni. Hann átti því bara átta pund eftir á nokkrum dögum sem þykir gott en Pettis tókst samt að vera yfir 145 punda (65,8 kg) fjaðurvigtartakmarkinu.

Pettis var kominn niður í 146,5 pund en þá gat líkaminn einfaldlega ekki meir.

„Líkaminn gat bara ekki losað sig við þessi auka pund. Við gerðum allt rétt fyrirfram og allt var samkvæmt áætlun en líkaminn gaf sig bara. Ég átti ekkert eftir. Við ákváðum að heilsan og ferillinn væru mikilvægari en þessi tvö auka pund,“ segir Pettis.

Þetta átti að vera annar bardagi Pettis í fjaðurvigtinni eftir langa veru í léttvigt. Pettis var sjö pundum léttari núna þegar hann kom til Toronto heldur en þegar hann mætti til Vancouver til að berjast við Charles Oliveira í ágúst í frumraun sinni í fjaðurvigt.

Í hvert sinn sem líkamshiti Pettis hækkaði byrjaði honum að svima og hann kúgaðist. Hann reyndi að kæla sig aftur niður en í hvert sinn sem hann reyndi að svitna gerðist það sama aftur. Að auki átti hann erfitt með andardrátt og byrjaði að fá bakflæði. Þetta er nokkuð sem Pettis hefur aldrei upplifað áður og kom honum verulega á óvart.

Eins og áður segir getur Pettis ekki orðið bráðabirgðarmeistari í kvöld þar sem hann náði ekki 145 punda fjaðurvigtartakmarkinu. Holloway getur hins vegar orðið bráðabirgðarmeistari með sigri.

Pettis var augljóslega vonsvikinn en vildi ekki taka neina ákvörðun varðandi framtíð sína í fjaðurvigtinni. Hann ætlar nú bara að einbeita sér að Max Holloway í kvöld. „Ég er ekki hérna til að vinna bráðabirgðarbelti. Upphaflega átti þetta ekki að vera titilbardagi. Planið var alltaf að vinna Max Holloway og hann er ekki að fara að vinna mig.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular