Fjölmiðlamaðurinn Ariel Helwani heldur því fram að salan á UFC sé langt komin. Því hefur áður verið haldið fram að eigendur UFC ætli sér að selja bardagasamtökin.
Dana White, forseti UFC, neitaði þessum orðrómi á dögunum. Helwani segist þó hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að sölunni miði vel áfram og sé boltinn svo sannarlega kominn af stað. Sé UFC í söluferli er Dana White væntanlega bundinn trúnaðarskyldu og myndi því alltaf neita þessum orðrómi.
UFC sale definitely progressing. Terms unclear at the moment, but lots of talk from very reliable sources today. Not 100% done, though.
— Ariel Helwani (@arielhelwani) June 14, 2016
Ekki er vitað hvort eigendur UFC, Zuffa LLC, séu að selja hlut í fyrirtækinu eða hvort verið sé að selja UFC í heild sinni. Flash Entertainments keypti 10% hlut í Zuffa árið 2010 og gæti svipað verið upp á teningnum núna.
Heimildir ESPN herma að eigendur UFC ætli sér að selja UFC í heild sinni fyrir fjóra milljarða dollara. Lorenzo og Frank Fertitta keyptu UFC á tvær milljónir dollara árið 2001. WME/IMG, China Media Capital, The Blackstone Group og Dalian Wanda Group eru sögð ætla að bjóða í UFC.
Dalian Wanda Group er sagt leiða kapphlaupið en stjórnarformaður fyrirtækisins er ríkasti maður Kína, Wang Jianlin.