Goðsögnin B.J. Penn gæti verið að snúa aftur í MMA eftir rúmlega 18 mánaða fjarveru. Í gær birtist mynd af honum með þjálfaranum virta Greg Jackson.
Samkvæmt MMA Fighting hitti B.J. Penn þjálfarann Greg Jackson í gær og er að velta fyrir sér möguleikanum á að ganga til liðs við JacksonWink liðið í Albuquerque. JacksonWink er eitt virtasta liðið í MMA heiminum en þar æfa bardagamenn á borð við Jon Jones, Holly Holm, Alistair Overeem, Carlos Condit og fleiri.
Í samtali við MMA Fighting sagði Greg Jackson að fundurinn með Penn hefði gengið afar vel. „Við erum bjartsýnir á framhaldið eftir góðan fund. B.J. hefur engin sérstök plön framundan en við erum með okkar eigin framtíðarplön.“
Jackson sagði enn fremur að Penn muni vera áfram í Albuquerque um tíma til að æfa með liðinu. Síðast sáum við B.J. Penn í júlí 2014 er hann mætti Frankie Edgar. Edgar hafði þónokkra yfirburði yfir Penn sem tapaði með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.
Penn hefur tvisvar hætt í MMA og tvisvar snúið aftur. Penn hætti fyrst eftir tap gegn Rory MacDonald í desember 2012 en snéri svo aftur til að berjast fyrrnefndan þriðja bardaga gegn Frankie Edgar. Eftir Edgar bardagann tilkynnti hann aftur að hann væri hættur. Það verður nú að koma í ljós hvort hann sé endanlega hættur eða komi til baka og verði hjá JacksonWink liðinu.
Penn hefur sagt að hann langi að berjast aftur og þá gegn Nik Lentz. Bardagamennirnir hafa skipts á orðum á samskiptamiðlum og væri Penn til í að þagga niður í honum á UFC 197.
Penn hefur barist við 15 andstæðinga í röð sem hafa annað hvort verið meistarar eða barist um titil í UFC. Lentz yrði því fyrsti andstæðingur Penn sem ekki hefur verið meistari eða barist um titil í UFC síðan Penn mætti Renzo Gracie árið 2005.
Penn er einn af fáum sem unnið hefur titil í tveimur þyngdarflokkum í UFC en hann hefur bæði sigrað léttvigtartitilinn og veltivigtartitilinn. Penn hélt þó aldrei beltunum á sama tíma líkt og Conor McGregor ætlar að reyna í mars.
Hér að neðan má sjá myndina af Instagram.