MMA Junkie hefur heimildir fyrir því að goðsögnin B.J. Penn sé meiddur og geti ekki barist gegn Ricardo Lamas. Bardaginn átti að fara fram þann 15. október og óljóst hvort UFC fái staðgengil í stað Penn.
Bardaginn átti að vera aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu í Filippseyjum eftir aðeins 11 daga. Þetta átti að vera endurkoma B.J. Penn í íþróttina eftir að hafa hætt árið 2014.
Þessi endurkoma Penn hefur ekki gengið að óskum. Upphaflega átti Penn að berjast við Dennis Siver á UFC 199. Siver meiddist hins vegar og kom Cole Miller inn í staðinn. Penn braut hins vegar reglur USADA þegar hann fékk næringu í æð og fékk sex mánaða bann.
Penn hefur verið að æfa hjá Jackson-Winkeljohn og á Penn enn marga aðdáendur eftir glæstan feril. Núna þarf hann að bíða enn lengur eftir næsta bardaga en Penn barðist síðast í júlí 2014 þegar hann tapaði illa fyrir Frankie Edgar.
Fyrrnefndur Cole Miller berst sama kvöld gegn Mizuto Hirota og hugsanlega verður hann færður upp í aðalbardagann.