Mál Jon Jones lýtur ekki vel út þessa dagana. Jones féll á lyfjaprófi á dögunum og greindi USADA frá því að B-sýnið hafi einnig verið jákvætt.
Eftir að í ljós kom að ólögleg efni hafi fundist í lyfjaprófi Jones óskaði lið hans strax eftir að B-sýnið yrði einnig rannsakað. Sýnið fór í rannsókn á fimmtudagsmorgni og liggja nú niðurstöðurnar fyrir.
Í yfirlýsingu frá USADA segir að niðurstöður B-sýnisins hafi verið þær sömu og í A-sýninu. Dana White sagði á fimmtudaginn að tvö ólögleg efni hefðu fundist í lyfjaprófi Jones. USADA mun ekki greina frá hvaða efni þetta eru fyrr en Jones eða lið hans gerir þær upplýsingar aðgengilegar.
USADA sér um öll lyfjamál UFC og hafa gert það undanfarið ár. Þetta er lang stærsta lyfjamálið eftir að USADA kom inn í spilið.
Daniel Cormier var gríðarlega svekktur þegar hann fékk fréttirnar af Jones. Hann hafði æft gríðarlega mikið fyrir bardagann og var gráti næst á blaðamannafundi skömmu eftir að hann fékk fréttirnar. Hann mun nú mæta Anderson Silva sem kemur inn með tveggja daga fyrirvara.