Portúgalski bardagamaðurinn Joao Carvalho lést í gærkvöldi. Carvalho hafði tapað MMA bardaga sínum á laugardagskvöldið með tæknilegu rothöggi.
Bardaginn fór fram í Total Extreme Fighting í Dublin í Írlandi en þetta var fysta bardagakvöld þeirra. Carvalho tapaði fyrir Charlie Ward með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.
20 mínútum eftir bardagann fór Carvalho að líða illa og fór hann með sjúkrabíl upp á Beaumont spítalann. Þar fór hann í heilaskurðsaðgerð og var ástand hans alvarlegt í tvo sólarhringa áður en hann lést.
Að sögn aðstandenda var öllum öryggisreglum framfylgt í aðdraganda bardagans og eftir bardagann. Ekki er vitað að svo stöddu hve dánarorsökin var eða hvort Carvalho hafi verið með undirliggjandi sjúkdóm eða galla sem gætu hafa haft áhrif.
Þetta er sjötta dauðsfallið í sögu MMA. Það heldur því enginn því fram að þetta sé hættulaus íþrótt. Keppendur eru meðvitaðir um áhættuna sem þeir taka, alveg eins og kappakstursökumenn og hestamenn vita af áhættunni sem þeir eru að taka þegar þeir stunda sínar íþróttir.
Núna er ekki rétti tíminn fyrir pólitískar blammeringar um ágæti MMA sem íþrótt. Gefum Carvalho þá virðingu sem hann á skilið. Hann sýndi það hugrekki sem svo fá okkar búa yfir og valdi að stíga í búrið og keppa í MMA.
Þetta er sorgardagur fyrir MMA og umfram allt fjölskyldu hans. Sérstakur styrktarsjóður hefur verið stofnaður fyrir fjölskyldu hans fyrir útfararkostnaði og öðrum kostnaði. Frekari upplýsingar um styrktarsjóðinn má nálgast hér.
Megi Joao Carvalho hvíla í friði.