spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentBardagi Bang-Kuntz rannsakaður eftir ásakanir um veðmálasvindl í UFC

Bardagi Bang-Kuntz rannsakaður eftir ásakanir um veðmálasvindl í UFC

17 mánaða gamall bardagi er nú til rannsóknar í Suður-Kóreu eftir ásakanir um veðmálasvindl. Bardaginn fór fram á UFC Fight Night 79 í Suður-Kóreu í nóvember 2015.

Þeir Leo Kuntz og Tae Hyun Bang mættust í einum af upphitunarbardögum kvöldsins á fyrsta UFC bardagakvöldinu í Suður-Kóreu. Lögreglan í Suður-Kóreu rannsakar nú hvort veðmálasvindl eða brögð hafi verið í tafli í bardaganum. Tae Hyun Bang sigraði eftir klofna dómaraákvörðun en hann liggur nú undir grun fyrir að hafa ætlað að tapa viljandi.

Samkvæmt fréttum frá Suður-Kóreu veðjaði einhver 1,7 milljónum dollara á að Bang myndi tapa. Samkvæmt sömu fréttum fékk Bang 90.000 dollara í mútur en helminginn notaði hann til að veðja á andstæðinginn.

Veðmálastuðlarnir snarbreyttust skömmu fyrir bardagann og grunaði UFC strax að eitthvað gruggugt væri á seyði. Skömmu fyrir bardagann drógu starfsmenn UFC Kuntz á eintal þar sem hann var skyndilega orðinn sigurstranglegri af veðbönkum en það þótti grunsamlegt.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri í gangi. Ég er ekki mikið fyrir að veðja þannig að ég hafði ekki hugmynd um að það væri grunur um veðmálasvindl,“ sagði Kuntz við MMA Fighting.

Starfsmenn UFC sögðu Kuntz að slíkar breytingar á stuðlunum væru óvenjulegar og fordæmalausar í UFC. Starfsmenn UFC vildu vera vissir um að Kuntz ætlaði sér ekki að gera eitthvað heimskulegt og tapa viljandi.

„Ég vissi ekki að stuðlarnir breyttust þegar stórt veðfé kemur inn. Það var veðjað á mig svo þeir voru nokkuð vissir um að ég kæmi ekkert nálægt þessu. Mér fannst Bang ekki berjast eins og einhver sem var að reyna að tapa. Ég held að hann hafi orðið hræddur þegar UFC talaði við hann og ákveðið að hætta við að tapa viljandi.“

Þetta er í fyrsta sinn sem svona mál kemur upp í UFC en greinilegt að bardagasamtökin hafi verið vel með á nótunum í þetta sinn. UFC hefur ekki enn tjáð sig um málið en hugsanlega verður samningi Bang rift við UFC eftir frekari rannsókn málsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular