spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentBardagi Floyd og Conor er langt í frá staðfestur

Bardagi Floyd og Conor er langt í frá staðfestur

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Fátt er meira talað um þessa dagana en mögulegur bardagi Conor McGregor og Floyd Mayweather. Orðrómurinn verður sífellt háværari en hvað er til í þessum orðrómi og hvaðan kemur þessi orðrómur?

Það er svo sem ekkert nýtt að Floyd Mayweather sé orðaður við bardaga gegn MMA bardagamanni. Orðrómurinn hefur þó aldrei vakið jafn mikla athygli og nú en rekja má orðróminn í þetta sinn til frétt The Sun. Slúðurmiðillinn er langt í frá áreiðanlegasti miðillinn en samt sem áður virðast margir taka þessari frétt þeirra alvarlega.

Þá hefur Colin Cowherd sem er með vinsælan útvarpsþátt á Fox Sports Radio haldið því fram að bardaginn muni fara fram í september og hefur hann þegar bókað hótel og flug til þess að horfa á bardagann.

Hvað þarf að gerast til þess að bardaginn fari fram?

Floyd Mayweather hætti í fyrra eftir sinn 49. sigur sem atvinnumaður. Conor McGregor er auðvitað samningsbundinn UFC og má ekki keppa í öðrum bardagaíþróttum nema með leyfi UFC – hvort sem það er glímumót eða box. UFC gæti „lánað“ McGregor fyrir væna fúlgu fjár í einhvers konar „co-promotion“. UFC hefur þó aldrei gert slíkt með núverandi eigendum en gætu tekið upp á því ef þeir fá nógu mikið í sinn vasa.

Það verður samt að hafa það í huga að hér eru nokkur risastór egó. UFC, Conor McGregor og Floyd Mayweather eru allir harðir í samningamálum og gefa ekkert eftir. Í upphaflegu frétt The Sun er því haldið fram að Floyd myndi fá 100 milljónir dollara og McGregor sjö milljónir. Írinn myndi aldrei nokkurn tímann samþykkja það. Hann veit að síðasti bardagi Floyd gekk mjög illa sölulega séð og myndi bardagi gegn McGregor selja talsvert betur. McGregor mun vilja miklu meira.

Þó UFC gæti fengið stóra sneið af stórri köku og grætt vel er það kannski ekki svo sniðugt fyrir UFC að leyfa McGregor að mæta Floyd. Írinn er frábær standandi í MMA en boxið er allt annað. Floyd Mayweather er einn besti boxari sögunnar og frábær varnarsnillingur. Ef menn eins og Manny Pacquiao og Miguel Cotto komu varla höggi á hann, hvernig á McGregor að geta það? Conor McGregor er frábær bardagamaður en hann er ekki betri boxari en Pacquiao.

McGregor yrði sennilega sigraður með nokkrum yfirburðum af Floyd og ekki er það góð auglýsing fyrir UFC og þeirra stærstu stjörnu. Það gæti skemmt vörumerkið Conor McGregor þar sem milljónir manna myndu horfa, sérstaklega þar sem þetta yrði annað tapið hans í röð. Að sama skapi yrði Floyd Mayweather rústað af McGregor ef hann myndi keppa í MMA en það er eitthvað sem Floyd myndi aldrei gera.

Til að bardaginn gæti farið fram þyrftu bæði Floyd Mayweather og McGregor að sækja um boxleyfi í Nevada enda er Floyd hættur og McGregor aldrei keppt sem atvinnumaður í boxi. Íþróttasamband Nevada þyrfti líka að samþykkja bardaga milli 49-0 Floyd og 0-0 McGregor. Það yrði aldrei nein hindrun þar sem Nevada fylki myndi græða vel á bardaganum en gaman að hafa það í huga.

MMA Vs Boxing.

A photo posted by Conor McGregor Official (@thenotoriousmma) on

Hvers vegna er verið að tala um þetta?

Síðasti bardagi Floyd gekk hörmulega sölulega séð en hann veit að bardagi gegn McGregor myndi gefa vel í aðra hönd. Ef Floyd vill berjast aftur eru fáir mögulegir andstæðingar fyrir hann sem myndu selja vel nema auðvitað Conor McGregor.

Á þessum tímapunkti er þetta bara Floyd Mayweather að koma sér í fréttirnar með því að segja að bardaginn gæti farið fram. Floyd veit að bardaginn myndi selja mjög vel og yrði nokkuð öruggur sigur fyrir hann. Orðrómurinn hlýtur að koma beint frá Floyd enda er hann að koma sér í fréttirnar með þessum orðrómi og er það ekki að ástæðulausu.

Floyd hefur nefnilega áhuga á að semja við Jon Jones. Floyd vill fá Jones í „The Money Team“ og gerast umboðsmaður hans og þá er hann einnig sagður ætla að stofna ný bardagasamtök. Það er því í hans hag að koma sér eins mikið í MMA fréttirnar eins og hann getur. Orðrómur um mögulegan bardaga gegn Conor McGregor gerir það svo sannarlega.

Það er líka skrítið hve spennan fyrir þessum bardaga virðist vera mikil. Að öllum líkindum yrði þetta öruggur en leiðinlegur 12 lotu sigur fyrir Floyd.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það sem við vitum

Ef við horfum hins vegar á það sem við vitum er ólíklegt að þessi bardagi eigi sér stað á árinu. McGregor vill ólmur berjast við Nate Diaz aftur og hefur ekki farið leynt með það. McGregor átti fund nýverið með stjórnendum UFC og stefndi UFC á að láta þá mætast aftur á UFC 202 í ágúst.

Dana White og félagar flugu til Stockton til að hitta Nate Diaz á dögunum. Fundurinn gekk hins vegar ekki vel og er alls óvíst hvort bardaginn fari fram á UFC 202 eins og upphaflega var talið. Hvers vegna ættu þeir að fljúga til Stockton til að ræða við Nate Diaz, tveimur dögum eftir að hafa fundað með McGregor, ef Floyd og McGregor eru að fara að berjast í september? Áræðanlegir fjölmiðlamenn eins og Ariel Helwani fullyrða að annar bardagi gegn Nate Diaz sé næsta skref hjá Conor McGregor.

Setjum aðeins samsæriskenningahattinn á okkur. UFC er samstarfsaðili Fox Sports og er útvarpsþáttur Colin Cowherd einmitt útvarpaður á Fox Sports Radio. Gæti UFC hafa „lekið“ fréttum af bardaga McGregor og Floyd í september til að setja pressu á Nate Diaz? Pressa Nate Diaz til að lækka sínar kröfur svo UFC geti sett saman annan bardaga gegn Conor?

Sjálfur forseti UFC, Dana White, hefur lítið tjáð sig um mögulegan bardaga Floyd og Conor annað en: „Floyd, hringdu í mig“. Það hljómar ekki eins og maður sem er nýlega búinn að gefa grænt ljós á að McGregor berjist utan UFC.

Það er auðvitað ekkert útilokað í þessu en ætli það sé ekki öruggt að fullyrða að þessi bardagi er langt í frá staðfestur. Colin Cowherd og fleiri geta bókað sín hótel í Las Vegas í september en þeir eru ekki að fara að horfa á Floyd og McGregor berjast.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular