Leon Edwards mun ekki ferðast til Bandaríkjanna til að berjast við Tyron Woodley. Þetta tilkynnti Edwards á samfélagsmiðlum.
UFC ætlaði að vera með bardagakvöld í London um næstu helgi. Bardagakvöldið hefur verið fært til Bandaríkjanna vegna ferðabannsins á milli Bandaríkjanna og Bretlands en nú er ljóst að upphaflegi aðalbardaginn verður ekki á dagskrá.
Þeir Leon Edwards og Tyron Woodley áttu að mætast í mikilvægum bardaga í veltivigt þar sem sigurvegarinn var líklegur til að fá titilbardaga á næstunni.
Margir bardagar sem voru á dagskrá í London eru nú af dagskrá þar sem fáir bardagamenn geta ferðast til Bandaríkjanna. UFC hefur þurft að hætta við 10 bardaga af þeim 13 sem áttu að vera á bardagakvöldinu en þrír eru í óvissu.
UFC sendi í dag fjölmörgum umboðsmönnum þar sem þeir buðu bardagamönnum sem eru á samningi við UFC bardaga á laugardaginn með skömmum fyrirvara.
Enn á eftir að finna höll og borg fyrir bardagakvöldið í Bandaríkjunum og óvíst hvort Tyron Woodley fái nýjan andstæðing. Sem stendur eru þrír bardagar á dagskrá núna þegar sex dagar eru í bardagakvöldið.