0

Blóðpeningar Fabricio Werdum

Fabricio Werdum átti ekki góða frammistöðu á laugardaginn þegar hann tapaði fyrir Alexander Volkov með rothöggi í 4. lotu. Um helgina sýndi hann einnig óþægilega mikil tengsl við stríðsglæpamanninn Ramzan Kadyrov.

Ramzan Kadyrov er æðsti ráðamaður Tjetseníu, einræðisherra, ásakaður um stríðsglæpi og mikill bardagaáhugamaður. Kadyrov hefur verið lýst sem hættulegasta manninum í MMA heiminum í dag. Fregnir af hermönnum hans sem pynta og drepa samkynhnegða í Tjetseníu hafa farið víða og lýtur Kadyrov á sig sem guð sem stjórnar öllu í landinu.

Þá á hann í nánum samskiptum við Vladimir Putin sem setur hann í mikilvæga stöðu í rússneskum stjórnmálum. Kadyrov er ötull stuðningsmaður Putin.

Kadyrov stjórnar Tjetseníu með harðri hendi. Hans orð eru lög og regla og þá fær hann vænar fjárhæðir í vasann frá rússnesku stjórninni. Í staðinn er Kadyrov tryggur hermaður Putin. Blaðamenn og aðgerðarsinnar sem draga aðgerðir Kadyrov í efa hafa fallið frá á undarlegan hátt og þá hafa andstæðingar Kadyrov verið myrtir í Moskvu og Dubai. Fyrrum lífvörður hans talaði um misþyrmingar Kadyrov opinberlega og var skotinn til bana í Vín 2009.

Þessi maður er stór stuðningsaðili Fabricio Werdum og virðist Werdum hæstánægður með samstarfið.

Akhmat MMA áberandi í London

Kadyrov dælir ríkisfé í bardagaklúbbinn Akhmat FC og bardagasamtökin sín Akhmat MMA. Bardagaklúbburinn er nefndur í höfuðið á föður Kadyrov, Akhmat Kadyrov. Tengsl Werdum við Kadyrov og Akhmat MMA hafa verið þekkt um nokkurt skeið en þrátt fyrir fregnir af þessum umdeilda manni er Werdum ekkert að fela tengslin. Um helgina var hann merktur klæðnaði Akhmat MMA að minnsta kosti tvisvar.

Hér er Werdum í Akhmat MMA peysu í síðustu viku í aðdraganda bardagans gegn Volkov í London.

Hér er hann svo að ganga í höllina á laugardagskvöldið, klæddur úlpu merktri Akhmat MMA.

Eins og flestum bardagaáhugamönnum er kunnugt um þurfa allir bardagamenn að klæðast Reebok fatnaði á öllum UFC viðburðum vikuna fyrir bardagann og auðvitað á bardagakvöldinu sjálfu. Leyfilegt er að klæðast fatnaði sem er ekki merktur neinu merki eins og t.d. jakkaföt. Ef bardagamenn klæðast fatnaði sem er með einhvers konar merkingu fá þeir áminningu og jafnvel sekt. Werdum hefur væntanlega fengið sekt eða áminningu fyrir þessi tilvik en hefur sennilega verið alveg sama enda fær hann talsvert betri pening frá Kadyrov en Reebok.

Werdum lét ekki nægja að klæðast merkjum Akhmat MMA heldur var inngöngulagið hans lag Akhmat FC!

Werdum er greinilega hæstánægður með samstarfið fyrst hann vill koma merkjum Akhmat MMA sem víðast. Hann virðist líka fá ágætlega borgað en myndband af Werdum að fá glænýjan Mercedes Benz að gjöf frá Kadyrov var birt á Instagram í fyrra. Bíllinn að sjálfsögðu merktur Akhmat en myndbandið af Werdum að fá bílinn hefur nú verið fjarlægt af Instagram.

Werdum er ekki eini MMA bardagamaðurinn sem hefur átt í tengslum við Kadyrov. Chris Weidman, Khabib Nurmagomedov, Alexander Gustafsson, Frankie Edgar og Frank Mir eru meðal þeirra sem hafa heimsótt Kadyrov í Tjetseníu og skemmt sér konunglega með honum.

Khabib hefur fengið glæsilegar gjafir frá Kadyrov en staða hans er kannski öðruvísi enda býr hann og fjölskylda hans á því svæði sem Kadyrov hefur mikinn áhrifamátt.

Í fyrra kom út heimildaþáttur HBO um Kadyrov sem sýndi einræðisherrann í réttu ljósi. Á undanförnum mánuðum hefur borið minna á samskiptum þessara bardagamanna við Kadyrov en á sama tíma virðist Werdum vera að auka samstarf sitt við Kadyrov.

Í fyrra var VICE með umfjöllun um meinta landhreinsun Tjetseníu á samkynhneigðum mönnum.

Þess má geta að umboðsmaður Frankie Edgar, Khabib og Werdum er auðvitað umboðsmaðurinn umdeildi, Ali Abdel-Aziz. Nokkrir bardagamenn Akhmat MMA hafa komið inn í UFC á undanförnum mánuðum. Þar má nefna efnilega bardagamenn á borð við Abdul-Kerim Edilov og Magomed Bibulatov en Ali er einnig umboðsmaður þeirra. Ali á í góðum tengslum við Kadyrov og hefur ekki farið leynt með það.

Fedor í vandræðum

Í október 2016 börðust drengir frá 8-11 ára aldurs á Akhmat MMA bardagakvöldinu. Þar á meðal voru synir Kadyrov en bardagar drengjanna voru sýndir í rússnesku sjónvarpi. Gjörningurinn var auðvitað ólöglegur og harðlega gagnrýndur af fjölmiðlum í Rússlandi. Formaður rússneska MMA sambandsins, goðsögnin Fedor Emelianenko, var meðal þeirra sem gagnrýndi bardagana opinberlega.

Fedor hefur átt í góðu sambandi við Vladimir Putin í gegnum tíðina en Kadyrov er enginn aðdáandi Fedor og sérstaklega ekki eftir þessi ummæli. Skömmu eftir ummæli Fedor var ráðist á dóttur hans úti á götu en ekki hefur verið sannað að Kadyrov hafi staðið að baki á árásinni. Kadyrov sagði þó eftir árásina að Fedor sjái eftir ummælum sínum í dag.

MMA er ekki bara risastórt áhugamál fyrir Kadyrov heldur notar hann íþróttina til að halda uppi ákveðni ímynd í Tjetseníu og utan heimalandsins. Kadyrov er að reyna að nota MMA og þessa þekktu íþróttamenn til að sýna að Tjetsenía sé ekki hættulegt land og þar megi finna glamúr og glæsileika.

Árið 2017 voru yfir 5.000 karlmenn í Tjetseníu meðlimir í bardagaklúbbi Kadyrov, Akhmat FC. Aðeins lítill hluti af þeim eru valdir til að verða atvinnubardagamenn undir merkjum Akhmat MMA. Þá er talið líklegt að margir karlmenn séu úthlutaðir hernum úr bardagaklúbbnum en yfirmaður í sérsveit hersins í Tjetseníu rekur Akhmat FC bardagaklúbbinn.

Afrek á íþróttavettvangi eru þjóðarsigrar fyrir Tjetseníu og hjálpa ímynd Kadyrov í heimalandinu og á alþjóðlegum vettvangi. Skósveinar Kadyrov sitja við stjórnvölinn í íþróttaklúbbum á borð við Akhmat MMA og FC Akhmat Grozny fótboltaliðsins til að ganga úr skugga um að allt lúti að vilja Kadyrov. Þess má geta að fótboltaliðið hét áður Terek FC en í fyrra var nafni félagsins breytt vegna „þúsundir óska stuðningsmanna“ í FC Akhmat Grozny að sögn Kadyrov.

Kadyrov notar MMA sem pólitískt afl og sem nokkurs konar ræktun fyrir hermenn. Þá hefur hann lagt til að UFC og Akhmat MMA mætist í útláttarkeppni þar sem barist er til dauða. Werdum sér ekki hvernig samstarf sitt tengist pólitík og segir það ekki snúa um neitt annað en MMA.

„Samband mitt við Kadyrov á bara við um MMA. Pólitíkin er allt annað. Ég veit ekkert um pólitík. Ég er sendiherra Tjetseníu fyrir MMA, MMA sendiherra. Ekkert meira. Ég get sagt þér frá bardagamönnunum í Tjetseníu, við erum með tvo til þrjá bardagamenn í UFC. Þetta eru harðir strákar. Ég svara öllu sem tengist MMA en pólitíkin er allt annað. Pólitík og MMA er tvennt ólíkt, mikill munur þar á,“ sagði Werdum við Ariel Helwani í fyrra.

Fyrir stórar fjárhæðir, takmarkaðar skyldur og hverfandi tekjumöguleika hins fertuga Werdum er kannski auðvelt fyrir hann að lýta framhjá vafasömu orðspori Kadyrov. Með því að klæðast Akhmat MMA svona áberandi eins og hann gerði um helgina getur hann samt ekki sloppið undan gagnrýni. Werdum er að fá háar fjárhæðir frá mjög hættulegum manni sem er bara að auka tengingu sína við MMA.

Hvetjum áhugasama að fylgjast með verkum blaðamannsins Karim Zidan en hann hefur fjallað ítarlega um Ramzan Kadyrov og tengingu hans við MMA. Nokkrar af hans greinum má sjá hér að neðan og þá er hægt að fylgja honum hér á Twitter.

Heimildir:

Bleacher Report

Deadspin

Deadspin

MMA Fighting

Bloody Elbow

Bloody Elbow

MMA Junkie

VICE

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.