spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentBölvaði bardaginn

Bölvaði bardaginn

Fimm sinnum reyndi UFC að setja saman bardaga Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson en fimm sinnum féll bardaginn niður. Bardaginn hefði átt að vera einn af þeim stóru en fór aldrei fram.

Tveir menn að mætast á toppi ferils síns, ósigraðir í síðustu 12 bardögum sínum í besta þyngdarflokki í heimi, báðir búnir að vinna léttvigtarbeltið og hafa ekki tapað því. Tvær óstöðvandi vélar með tanka sem aldrei tæmast. Annar er líkamsgerving villtrar óreiðu í búrinu þar sem enginn veit hvað gerist næst. Hinn er jarðýtan sem allir sjá koma en enginn getur stöðvað. Að tvær lengstu sigurgöngur í sögu léttvigtar UFC ættu sér stað á sama tíma virtist óhugsandi en sú var staðreyndin engu að síður.

Sjá einnig: Vonbrigðasaga Khabib-Ferguson

Khabib Nurmagomedov lagði hanskana á hilluna um seinustu helgi, líklega sem besti léttvigtar bardagamaður sem hefur sést hingað til. En það var einn bardagi sem við fengum aldrei að sjá, ein viðureign sem okkur dreymdi um svo lengi en aldrei varð og aldrei verður.

Standandi viðureign

Standandi voru flestir sammála því að Tony Ferguson hefði forskotið. Khabib hefur þó bætt sig mikið standandi og leit einkar vel út um helgina þar sem hann sýndi góða stungu, framspörk og hné sem ollu Gaethje vandræðum. Einnig var fótavinnan talsvert betri og þurfti Gaethje að hlaupa til að halda sér undan Khabib sem labbaði rólega fyrir hann og setti upp höggin sín með hættunni á fellunni alltaf í loftinu. Vörnin hans leit einnig betur út þar sem hann var rólegur undir höggunum, hélt pressu og svaraði með eigin höggum. Það sem virtist þó bíta á hann voru lágspörkin.

Mynd 1: Bæði Tony og Khabib nota mikið stungur og framspörk standandi. Tony leitast auk þess eftir að lenda olnbogum meðan Khabib sækir mikið í að hnjáa.

Tony er með frábær lágspörk sem hann notar mikið og hefur meðal annars æft þau með því að sparka í járnstaur. Einnig hefur hann notað framspark með góðum árangri en Khabib er með mjög „squared“ stöðu og því opinn fyrir framspörkum eins og Conor McGregor notfærði sér í þriðju lotu í þeirra bardaga.

Tony er einnig með góða stungu og rúmlega 15 sentímetra lengri faðm en Khabib sem gæti reynst hættulegt þar sem Khabib hefur átt í erfiðleikum með að takast á við stunguna og refsa andstæðingum fyrir að nota hana. Í návígi er Tony líklega með hættulegustu olnboga í UFC og hefur notað þá til að skera upp og refsa andstæðingum sínum sem komast fram hjá stungunni.

Allt eru þetta vopn sem gætu nýst vel gegn Khabib en helsti kostur Tony standandi er hversu óhræddur hann er að toga í gikkinn og gera hvað sem honum dettur í hug, sem gerir erfitt fyrir andstæðinginn að lesa hvað kemur næst frá Tony.

Þar að auki er hann duglegur að skipta um fótastöður og sækir vel úr þeim báðum. Tony hefur þó sína veikleika standandi en hann stendur frekar hár og með hökuna upp í loftið, enda finnst varla Tony Ferguson bardagi þar sem hann er ekki vankaður eða sleginn niður. Fótavinnan hans skilar honum einnig oft upp við búrið en það kæmi sér afar illa gegn Khabib.

Mynd 2: Tony á það til að hreyfa sig þannig að hann endi með eigið bak upp við búrið. Khabib hefur bætt sína fótavinnu og sker nú búrið betur þannig að andstæðingarnir komast ekki í miðjuna.

Standandi glíma

Þegar skotið er inn á Tony notfærir hann sér að andstæðingurinn sé með hausinn niðri til að setja upp „D‘arce“ hengingu eða „guillotine“. Nokkrir andstæðingar Khabib hafa náð honum í stöðu til að sækja þessar hengingar gegn honum og hefði verið áhugavert að sjá hvað Tony gæti gert úr sömu stöðu. Ef að andstæðingurinn kemst í „bodylock“ að aftan rúllar Tony yfirleitt í kollhnís og sækir þá oftast fótalása.

Tony gefur oft á sér bakið standandi, t.d við að reyna snúnings olnboga, og notar hann þá rúlluna án þess að andstæðingurinn hafi náð gripi á honum sem forvörn. Khabib er einn sá besti í heiminum í að ná andstæðingnum í „bodylock“ að aftan og stjórna þeim þaðan. Því væri gríðarlega áhugavert að sjá hvernig sú staða færi.

Tony á það einnig til að nota klassískari felluvarnir eins og að setja mjaðmirnar aftur og grípa „collar tie“ til að halda andstæðingnum af sér. Þaðan lendir hann síðan sínum stórhættulegum olnbogum. Tony er þó með öllu óhræddur við að berjast af bakinu, hvort sem það er eftir að andstæðingurinn nær fellu eða Tony fer í „guard pull“.

Mynd 3: Tony rúllar í fótalás úr bodylock að aftan. Khabib stjórnar sínum andstæðing úr sömu stöðu og færir þyngdina sína fram á hendur andstæðingsins sem þarf þá að bera allan þungan.

Khabib sýndi það enn eina ferðina um helgina hversu góður hann er að sækja fellur og fórum við vel yfir hvernig hann gerir það í greiningunni okkar á honum í seinustu viku. Hann sýndi þó einnig hversu góður hann er að glíma standandi úti á miðju gólfi þegar hann tók Gaethje niður þar. Khabib gerði vel með því að mynda vinkil og klára felluna þó að Gaethje hafi varist vel og sett mikinn þunga á Khabib.

Mynd 4: Tony verst fellu og notar það til að sækja hengingu enda með gríðarlega langar hendur. Khabib er settur í sömu stöðu en ýtir andstæðingnum upp við búrið og klárar felluna.

Gólfglíman

Khabib er af flestum talinn einn besti glímumaður sem léttvigtin hefur séð. Hann nýtir allar opnanir, hvort sem er til að bæta stöðuna sína eða láta þung högg dynja á andstæðingnum. Hann er bestur þegar andstæðingurinn reynir að nota búrið til að standa upp og festir þá á þeim lappirnar, sækir úlnlið á hendinni sem þeir eru að reyna að standa upp á, eða tekur á þeim bakið ef þeir fara á hnén til að standa upp. Auk þess er hann öruggur um getu sína til að ná mönnum niður ef þeir standa upp, enda einn sá besti í fellum upp við búrið.

Khabib brýtur menn með því að taka þá endurtekið niður og refsar þeim þegar þeir reyna að koma sér upp aftur. Það er hættulegt fyrir andstæðinga Khabib að reyna að nota búrið til að standa upp en það hefur verið talin besta leiðin til að komast aftur upp seinustu árin.

Mynd 5: Tony sækir með olnbogum og uppgjafartaki af bakinu. Khabib lætur þung högg dynja með því að hafa höfuðið sitt yfir höfði andstæðingsins og setja þannig þyngdina sína í höggin.

Tony er þó ekki eins og flestir bardagamenn. Hann notar sjaldan búrið til að reyna að standa upp og er jafn líklegt að hann ýti sér af því og noti það til að skapa vinkil til að sækja í uppgjafartök af bakinu eða snúa stöðunni við. Tony spilar mikið lokað „guard“ og fer oft þaðan í „rubber guard“ til að stjórna mönnum á meðan að hann olnbogar þá og setur upp uppgjafartök.

Til að stjórna betur fjarlægð setur Tony oft aðra og stundum báðar lappir á mjaðmir andstæðingsins. Hann á það þó til að vera of árásargjarn af bakinu og opna sig þegar hann sækir. Þá hafa einhverjir andstæðingar náð að komast fram hjá fótunum hans og í yfirburðarstöðu. Tony er þó góður í að ná fótunum sínum aftur á milli sín og andstæðingsins og reynir jafnvel högg af bakinu þótt andstæðingurinn sé í yfirburðarstöðu.

Ef að andstæðingurinn stendur yfir Tony notar hann uppspörk eða sækir fótalása á andstæðinga og notar það til að bæta stöðu sína eða lenda höggum.

Mynd 6: Þegar andstæðingurinn stendur rúllar Tony sér undir, sækir fótalás og nýtir síðan stöðuna til að lenda höggum. Þegar Khabib stendur yfir andstæðingum notar hann þungar mjaðmir, ógnina af höggum og góða stjórn á fótunum til að komast í yfirburðarstöðu.

Tony liggur aldrei kyrr heldur er stanslaust að reyna að sækja af bakinu, hvort sem það eru hengingar, lásar eða högg. Khabib er einnig stanslaust að sækja af toppnum, að bæta stöðuna sína eða lenda þungum höggum og því hefði verið ótrúlega spennandi að sjá þessa viðureign í gólfinu.

Barátta sterkra vilja

Bæði Tony og Khabib hafa verið vankaðir á sínum löngu sigurgöngum en börðust í gegnum það og enduðu á því að taka sigurinn. Báðir notuðu gríðarlega pressu og hátt tempó til að brjóta niður andstæðinga sína líkamlega og andlega.

Khabib virti sóknir andstæðinga sinna lítils, kom sér í glímustöður, stjórnaði þeim og stökk á öll tækifæri til að bæta stöðu sína eða klára bardagann. Tony sótti með öllu sínu vopnabúri standandi, labbaði andstæðinga sína niður étandi högg frá þeim og notfærði sér mistök þeirra þegar þeir skutu á hann með hausinn niður til að klára með hengingu. Ef þeir voru orðnir of þreyttir til að verja sig almennilega lenti Tony þungum höggum og gat klárað bardagann þannig.

Því er eðlilegt að spyrja sig, í bardaga milli tveggja manna sem nota svona mikla pressu og hátt tempó á allt öðruvísi hátt, hvor fær sínu fram? Hvor nær að brjóta hinn? Hefði Khabib labbað Tony niður virðingarlaust lendandi stungum, framspörkum og hnjám þar til hann endar við búrið þar sem Khabib stjórnar Tony með „bodylock“? Upp við búrið hefði Khabib tekið Tony niður með með „single leg“ eða sópað undan honum fótunum, lent þungum höggum í bland við stöðubætingar í gólfinu og endað á að hengja hann?

Eða hefði Tony náð að lenda lágspörkum og stungum á Khabib standandi og refsað honum með olnbogum þegar hann reynir að komast nær? Jafnvel ógnað hengingum þegar Khabib skýtur og rúllað sér út úr „bodylock“ og þreytt þannig Khabib? Af bakinu hefði hann kannski notað olnboga, uppspörk og sótt í lása og hengingar af bakinu þar til Khabib skýtur illa og Tony hengir hann með „D‘arce“?

Líklega verður þessum spurningum aldrei svarað og þótt flestir séu sennilega á því núna að Khabib myndi vinna bardagann munum við alltaf syrgja að hafa ekki fengið að sjá besta bardaga í sögu léttvigtarinnar.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular