Thursday, April 25, 2024
HomeErlentVonbrigðasaga Khabib-Ferguson

Vonbrigðasaga Khabib-Ferguson

Það er nú endanlega staðfest. Khabib Nurmagomedov mun ekki mæta Tony Ferguson á UFC 249. Þetta er því í fimmta sinn sem þessi bardagi fellur niður.

Það er oft grínast með að það sé bölvun á hinu og þessu en þessi vonbrigðasaga bardagans á milli Tony Ferguson og Khabib Nurmagomedov er löngu hætt að vera fyndin. Þetta hlítur að vera einhver bölvun! Förum aðeins yfir sögu bardagans.

Desember 2015 – Khabib meiðist

Þeir Ferguson og Khabib áttu fyrst að mætast í desember 2015. Þá var Ferguson 9-1 í UFC og Khabib 6-0. Í október það ár neyddist Khabib til að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla en í hans stað kom Edson Barboza. Ferguson sigraði Barboza með hengingu í frábærum bardaga.

Apríl 2016 – Ferguson meiðist

UFC reyndi aftur að setja bardagann saman nokkrum mánuðum eftir sigur Ferguson á Barboza en í þetta sinn var það Tony Ferguson sem dró sig úr bardaganum. Ferguson fékk blóð í lungun en í hans stað kom Darrell Horcher inn með tíu daga fyrirvara. Bardaginn fór fram í 160 punda hentivigt en Khabib sigraði með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Þetta var fyrsti bardagi Khabib í tvö ár en hann hafði þurft að hætta við þrjá bardaga í röð fram að sigrinum gegn Horcher.

Mars 2017 – Khabib klúðrar niðurskurði

UFC gafst upp á bardaganum um skeið en bardaginn var svo settur saman í þriðja sinn. Fyrsti titilbardaginn á milli þeirra átti að fara fram á UFC 209 þann 4. mars. Þarna var Ferguson 12-1 og hafði nýlega sigrað fyrrum meistarann Rafael dos Anjos mjög sannfærandi. Khabib var nálægt því að fá titilbardaga gegn þáverandi meistara Eddie Alvarez en UFC kaus að gefa Conor frekar bardagann. Khabib rústaði Michael Johnson í nóvember 2016 og var þá 8-0 í UFC. Conor var ríkjandi léttvigtarmeistari en var í sjálfskipaðri útlegð og því þurfti bráðabirgðarbelti í léttvigtinni. UFC setti því saman bardaga um bráðabirgðarbeltið í léttvigt á milli Khabib og Tony.

Aldrei höfum við komist jafn nálægt því að sjá þá berjast eins og í mars 2017. Daginn fyrir bardagann neyddist Khabib til að draga sig úr bardaganum eftir misheppnaðan niðurskurð. Þetta var gríðarlegt reiðarslag fyrir aðdáendur og mikil vonbrigði. Dana White, forseti UFC, sagði að hann myndi aldrei setja þennan bardaga aftur saman. Ferguson barðist ekki við neinn í staðinn en vann bráðabirgðartitilinn gegn Kevin Lee í október 2017.

Apríl 2018 – Ferguson meiðist

Þar sem báðir héldu áfram að vinna alla sem UFC setti í búrið með þeim gat UFC ekki annað en sett þá saman í fjórða sinn. Það var síðan þann 1. apríl, aðeins 6 dögum fyrir bardagann, sem bardaginn féll enn einu sinni niður. Nokkrum dögum fyrr hafði Tony Ferguson misstigið sig þegar hann steig á sjónvarpskapal í sjónvarpsviðtali og sleit nokkur liðbönd í hnénu. Ferguson reyndi að æfa í gegnum sársaukann en neyddist til að bakka úr bardaganum og fór í aðgerð.

Max Holloway átti upphaflega að koma í stað Ferguson gegn Khabib með 6 daga fyrirvara en þáverandi fjaðurvigtarmeistarinn náði ekki vigt! Daginn fyrir bardagann kom Al Iaquinta (sem átti að mæta Paul Felder á sama kvöldi) inn gegn Khabib. Khabib fór létt með Iaquinta og varð loksins léttvigtarmeistari UFC. Ferguson missti um leið bráðabirgðarbeltið sitt og var Conor einnig sviptur léttvigtartitli sínum í leiðinni. Khabib var því einn á toppnum í léttvigtinni. Í aðdraganda bardagakvöldsins átti rútuárásin fræga hjá Conor sér stað.

Þeir Khabib og Conor mættust síðan í október 2018 en á sama kvöldi barðist Tony Ferguson við Anthony Pettis. Einhvern veginn tókst þeim Khabib og Ferguson báðum að berjast á sama kvöldi en þó ekki gegn hvor öðrum.

Apríl 2020 – Khabib fastur í Rússlandi

Í fimmta sinn var bardaginn settur saman. Báðir hafa unnið 12 bardaga í röð í UFC, Ferguson samanlagt 15-1 í UFC og Khabib 12-0. Tvær ótrúlegar sigurgöngur en aldrei tekst þeim að fara í búrið saman. Bardaginn var staðfestur strax í janúar á þessu ári og þótti bardagaaðdáendum full langt í bardagann miðað við sögu beggja. UFC vildi upphaflega hafa bardagann í mars en þar sem Khabib neitar að berjast í Las Vegas var bardaginn settur á bardagakvöld UFC í New York.

Í þetta sinn var það kórónaveiran sem kom í veg fyrir bardagann. Samkomubann var sett á í New York og víðsvegar um Bandaríkin vegna veirunnar. Khabib var þegar mættur til Bandaríkjanna nokkrum vikum fyrir bardagann til að æfa en nánast allar æfingar féllu niður hjá AKA vegna veirunnar. Khabib fékk síðan þær upplýsingar að bardaginn yrði 100% ekki í Bandaríkjunum og að 99% líkur væru á að UFC 249 færi fram í Abu Dhabi. Khabib flaug þangað en þegar þangað var komið fékk hann þær upplýsingar að landinu yrði lokað fljótlega. Khabib fór því heim til Dagestan en á dögunum var landamærum Rússlands lokað. Khabib endaði því á því að vera fastur í Rússlandi og féll bardaginn því niður í fimmta sinn!

Tony Ferguson átti að mæta Justin Gaethje á UFC 249 en bardagakvöldið var á endanum fellt niður.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular