Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeErlentJustin Gaethje: Ég er tilbúinn í þetta

Justin Gaethje: Ég er tilbúinn í þetta

Justin Gaethje sagðist ekki geta hafnað tækifærinu þegar honum var boðið að berjast við Tony Ferguson. Gaethje kemur inn með skömmum fyrirvara en barist verður upp á bráðabirgðarbeltið í léttvigt.

Aðfaranótt þriðjudags tilkynnti UFC að það yrði Justin Gaethje sem myndi verða staðgengill Khabib Nurmagomedov, sem situr nú fastur í Rússlandi, á UFC 249. Bardagi Gaethje og Ferguson verður aðalbardagi kvöldsins en Dana White hefur ekki viljað greina frá hvar bardagakvöldið verður þó heimildir herma að verði á friðlendusvæði indjána í Kaliforníu.

Gaethje var heima hjá sér þegar síminn hringdi síðasta föstudag og honum boðinn bardaginn. Hann hafði ekki geta gert sér hugarlund um að eitthvað svona gæti átt sér stað og var hann í fyrstu óviss um að þiggja bardagann. Í kjölfarið hafði hann samband við þjálfarann sinn sem var einnig efins en eftir að hafa lagst undir feld hafi þeir ákveðið að með bráðabirgðatitil að veði væri þetta tækifæri sem ekki væri hægt að hafna.

„Ég hringdi í þjálfarann minn og hann sagði ‘en þú tekur ekki bardaga með stuttum fyrirvara’. Ég var sammála því en eftir að hafa sofið á þessu hugsaði ég með mér að ég væri samt á nákvæmlega sama stað ef ég tapa þessum bardaga,“ sagði Gaethje.

Gaethje telur sig því ekki færast mikið aftar í goggunarröðunni að titlinum fari svo að hann tapi. Ferguson og Khabib áttu að mætast núna og myndu þá mætast næst ef Ferguson sigrar. Gaethje og aðrir léttvigtarkeppinautar þyrftu að bíða og sjá hvernig hlutirnir þróast eftir þann bardaga.

Gaethje hefur fengið knappan tíma til að undirbúa sig fyrir bardagann og undirbúningurinn sjálfur hefur verið með óvenjulegu sniði eins og gefur að skilja. Gaethje æfir í sex manna teymi sem innheldur hann sjálfan, þrjá æfingafélaga og tvo þjálfara. Gaethje sparrar tvisvar sinnum í viku og hina dagana er hann á einstaklingsæfingum með þjálfurum sínum. Þó svo að kappinn hafi ekki átt von á að vera að fara að berjast í apríl er hann samt í fanta formi. Gaethje var einn af aðalæfingafélagum Neil Magny og Austin Hubbard sem báðir áttu bardaga á UFC 248 í byrjun mars svo hann hefur verið við æfingar núna í nokkra mánuði.

„Ég fór til þjálfarans míns og sagði honum að ég væri búinn að vera sparra núna sjö til átta lotur í hverri viku síðan í janúar, ég er tilbúinn í þetta!“

Gaethje hefur áður sagt að hann kjósi ekki berjast með stuttum fyrirvara og vilji alltaf ná fullum æfingabúðum fyrir bardaga en þessar kringumstæður bjóða ekki upp á það. Samt sem áður segist hann vera 90% klár núna og komi til með að vera 95% þann 18. apríl. Á síðustu tíu dögum hefur hann skorið niður 4,5kg en á enn eftir að skera niður um 5,9kg til að hann nái vigt.

Aðspurður hvaða þýðingu bráðabirgðabeltið hefði fyrir hann fór Gaethje ekkert í felur með það að hann væri að þessu peninganna vegna.

„Það sem þetta þýðir fyrir mig er að þegar maður er meistari þá fær maður hluta af sjónvarpstekjunum. Þegar ég vinn þetta belti þá gerir það mig að meistara í augum UFC og þá fæ ég hluta af sjónvarpstekjunum í næsta bardaga. Ég berst fyrir peninga! Og þetta tækifæri er risastórt fyrir mig með tillit til þess.“

Eftir að Gaethje samþykkti að taka bardagann gegn Tony Ferguson viðurkenndi hann að hann sé óttasleginn við tilhugsunina að vera að taka bardaga með svona skömmum fyrirvara og var hann hræddur um að hann myndi ekki ná að undirbúa sjálfan sig nægilega vel. Síðan þá hafa fiðrildin í maganum flögrað í burtu og er Gaethje núna að hans sögn reiðubúinn að horfast í augu við óttann.

„Ég er ekki vitleysingur, ég veit að það tekur tíma og mikla undirbúningsvinnu til að geta barist á hraðanum sem ég vil berjast á. Núna er ég haldinn mjög djúpri sannfæringu um að ég geti þetta. Það var eitthvað í undirmeðvitundinni sem sagði mér að minn næsti bardagi yrði stór þannig ég hef ómeðvitað mætt á æfingar með það viðhorf og æft samkvæmt því.“

Gaethje telur að Ferguson muni koma óþreyjufullur og árásargjarn inn í bardagann og muni það leiða til þess að hann verði opinn fyrir höggum og ætlar Gaethje að nýta sér það. Leikáætlun Gaethje mun vera að halda hraðanum eins mikið upp og mögulegt er.

„Ég ætla að halda hraðanum uppi, ég verð að koma höggum í skrokkinn og sparka í lappirnar á honum til þess að draga úr honum þróttinn. Ég ætla að berjast hratt, ég ætla að berjast eins og ég berst og ég ætla mér að rota hann!“

Allt viðtalið er hægt að sjá í spilaranum hér að neðan.

Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular