spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentChuck Liddell telur sig enn vera með hraðann til að vinna Tito...

Chuck Liddell telur sig enn vera með hraðann til að vinna Tito Ortiz

Chuck Liddell snýr aftur í búrið á laugardaginn eftir átta ára fjarveru þegar hann mætir Tito Ortiz í þriðja sinn. Chuck Liddell hefur tvisvar unnið Ortiz og býst við að þetta verði auðveldur bardagi.

Chuck Liddell lagði hanskana á hilluna árið 2010 eftir þrjú slæm töp í röð. Hinn 48 ára gamli Liddell berst nú á laugardaginn á fyrsta MMA viðburði Golden Boy Promotions undir Oscar de la Hoya. Bardaginn er aðalbardagi kvöldsins og langstærsta aðdráttaraflið. De la Hoya ætlar að nota box módelið í MMA bransanum þar sem einn stór bardagi er langstærsta aðdráttaraflið og skipta aðrir bardagar talsvert minna máli.

Um Pay Per View er að ræða og verður bardaginn aðgengilegur á Fite.TV fyrir 49 dollara. Sérstakt tilboð er þó í gangi núna í tilefni af svörtum föstudegi og kostar áhorfið 14,99 dollara. Margir hafa gagnrýnt hátt verð á bardaganum en De la Hoya segir verðið vera mjög sanngjarnt.

Liddell er hvergi banginn þó langt hafi liðið síðan hann barðist síðast. Liddell vann Ortiz fyrst í apríl 2004 og svo aftur í desember 2006 en sá bardagi var á sínum tíma stærsti bardagi í sögu UFC. Nú mætast þeir í þriðja sinn á laugardaginn.

„Ég býst við að þetta verði auðvelt. Hann er að vona að það hafi hægst á mér eftir 12 ár og að ég sé orðinn svo hægur að hann geti í alvörunni unnið mig. Það er hann að segja, að ég sé búinn á því og hægur núna,“ sagði Chuck Liddell við blaðamenn á dögunum.

„Ég mun vinna hann. Ortiz er í rauninni að segja að hann geti ekki unnið mig ef ég er hraður. Ég get ennþá stoppað fellurnar hans, ég kýli ennþá mjög, mjög fast og er ennþá nokkuð hraður. Hann mun sjá það eftir um það bil mínútu af bardaganum og leita að leið út.“

Liddell hefur ekki beint litið út fyrir að vera hraður miðað við þau myndbönd sem hafa birst af honum nýlega. Ortiz er „aðeins“ 43 ára gamall og barðist síðast í janúar í fyrra. Þá hætti hann í MMA en eins og svo oft áður ákvað hann að snúa aftur í búrið.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular