Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentColby Covington: UFC lofaði mér titilbardaga

Colby Covington: UFC lofaði mér titilbardaga

Colby Covington er afar ósáttur þar sem hann er ekki að fá titilbardaga gegn Tyron Woodley. Þess í stað mun Kamaru Usman mæta Woodley í mars og segir Covington að Woodley hafi svikið loforð.

Næsta titilvörn Tyron Woodley verður gegn Kamaru Usman í mars. Valið stóð á milli Covington og Usman en samkvæmt ESPN var Usman valinn þar sem hann var tilbúinn að taka aðra bardaga til að tryggja sér titilbardaga á meðan Covington neitaði að berjast nema það væri gegn Woodley.

Covington varð bráðabirðarmeistari með sigri á Rafael dos Anjos í sumar. Covington gat hins vegar ekki barist þegar UFC vildi sjá Woodley verja titilinn í september og fékk Darren Till því titilbardagann. Covington hefur síðan þá ekki viljað berjast við neinn annan en Woodley.

„Þeir lofuðu mér titilbardaga gegn Tyron Woodley í nóvember í Madison Square Garden. Svo lofuðu þeir mér að ég myndi berjast við hann í janúar í Kaliforníu. Núna er skyndilega litið framhjá mér fyrir gæja sem hefur unnið þá sem ég hef þegar unnið. Ég skil það ekki. Þeir eru að drulla yfir mig, þeir eru að drulla yfir aðdáendur. Þeir eru að gera þetta allt minna spennandi,“ sagði Covington fyrr í kvöld í MMA þætti Ariel Helwani.

Covington er einn umtalaðisti bardagamaðurinn í UFC í dag. Hann kallaði Brasilíumenn „skítug dýr“ eftir bardaga hans gegn Demian Maia í Sao Paulo 2017. Hann greindi frá endinum í nýjustu Star Wars myndinni, The Last Jedi, á samfélagsmiðlum sínum þegar myndin var nýkomin út og sett út á útlit kvenna sem berjast í UFC. Á þessu ári hefur hann bara barist einu sinni en hefur reglulega póstað myndböndum af sér með klámstjörnum og þá hitti hann Donald Trump í hvíta húsinu. Að lokum má ekki gleyma þegar hann fékk bjúgverpil í andlitið frá Fabricio Werdum eftir orðaskipti þeirra.

Þrátt fyrir að vera svona umdeildur var síðasta bardagakvöld sem hann barðist á, UFC 225, ekki að skila miklum tekjum fyrir UFC. Talið er að aðeins 250.000 áskriftir (Pay Per View) hafi verið keypt.

„Ég þarf ekki UFC, UFC þarf mig. Ég hef ekkert að segja við UFC nema þeir bjóði mér titilbardaga. Ef þeir vilja reka mig geta þeir gert það. Ég ætla að bíða til að fá það sem ég á skilið. Og það er titilbardagi. Það eru aðrir stórir bardagar þarna. Möguleikarnir eru margir. Ég þarf að taka ákvarðanir. Ég get barist alls staðar,“ sagði Covington og virðist vilja losna frá UFC.

Covington vandaði UFC ekki kveðjurnar en hann óskaði eftir fundi með Dana White, forseta UFC. Covington sagði hins vegar að Dana hefði ekki svarað skilaboðum sínum enn.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular