Það er komið á hreint, Conor McGregor mun mæta Floyd Mayweather þann 26. ágúst. Þetta staðfestu bæði Conor og Floyd á samfélagsmiðlum sínum fyrr í kvöld.
Boxbardaginn sem lengi hefur verið talað um er nú loksins staðfestur. Bardaginn fer fram þann 26. ágúst í Las Vegas í T-Mobile Arena. Bardaginn fer fram í 154 pundum (69,8 kg) sem er ansi nálægt léttvigtartakmarkinu í UFC þar sem Conor barðist síðast.
Conor skaut aðeins á aldur Floyd Mayweather Jr. og birti mynd af Floyd Mayweather Senior á Instagram.
Floyd Mayweather er 49-0 í atvinnuhnefaleikum á meðan Conor er einfaldlega 0-0. Conor er þó með mikla reynslu úr áhugamannahnefaleikum heima á Írlandi og er núverandi léttvigtarmeistari UFC.
Bardaginn sem var bara djók og eitthvað sem báðir virtust nota til að koma nafni sínu í fjölmiðla er nú orðinn staðfestur. Fáir bjuggust við því að þetta yrði staðfest en boltinn fór almennilega að rúlla í janúar. Viðræður hafa síðan þá átt sér stað á milli UFC, Conor McGregor og Mayweather Promotions.
Í maí staðfesti Dana White, forseti UFC, að bardagasamtökin hefðu náð samkomulagi við Conor vegna bardagans. Þá átti eftir að eftir að semja við Floyd Mayweather og hans fólk um hvernig ætti að skipta tekjunum. Samkomulag hefur greinilega náðst enda bardagin staðfestur en ýmis smáatriði bardagans hafa ekki verið kunngjörð.
Bardaginn fer fram á Pay Per View kvöldi Showtime sjónvarpsstöðvarinnar og verður venjulegt boxkvöld en Mayweather Promotions stendur á bakvið viðburðinn. Til þess að halda boxkvöld í Las Vegas þarf að taka frá dagsetningu fyrir viðburðinn í samráði við íþróttasamband Nevada-fylkis (Nevada State Athletic Commission).
Mayweather Promotions ætlaði að óska formlega eftir því að taka frá daginn 26. ágúst fyrir óskilgreindan boxviðburð eins og við greindum frá í gær. Þá hermdu heimildir að taka ætti málið af dagskrá þar sem ekki voru öll mál klár. Afturköllunin frá Mayweather barst aldrei íþróttasambandinu og var dagsetning því staðfest í dag. Óskilgreindi boxviðburðurinn reyndist vera Floyd og Conor bardaginn.
Hinn fertugi Floyd Mayweather hætti árið 2015 en snýr aftur í hringinn eftir tveggja ára hlé. Floyd er mun sigurstranglegri hjá veðbönkum og verður þetta risastór launaseðill fyrir hann gegn óreyndum boxara.
Bardaginn svipar til bardaga Muhammad Ali og Antonio Inoki í Japan árið 1976. Þar barðist boxarinn við glímumanninn Inoki undir blönduðum reglum í sýningarbardaga. Spörkin frá Inoki ollu Ali miklum vandræðum og má segja að bardaginn eigi sinn stað í sögunni á upphafi MMA. Bardaginn var úrskurðaður jafntefli en í bardaga Floyd og Conor verður barist undir boxreglum.
Conor er að sjálfsögðu fullur sjáfstrausts fyrir bardagann. „Ég er með faðmlengdina, aldurinn, sjálfstraustið og óútreiknanlegan stíl. Þú getur ekki undirbúið þig fyrir mann með minn stíl. Vitur maður sagði eitt sinn við mig, hvers vegna að leggja undir sig bara einn heim þegar þú getur sigrað tvo? Þannig að ég ætla að sigra tvo heima,“ sagði Conor í janúar en hann hefur lofað því að klára Floyd.