Conor McGregor er einn tekjuhæsti íþróttamaður heims samkvæmt 2017 lista Forbes tímaritsins. Conor er í 24. sæti listans ásamt knattspyrnumanninum Gareth Bale.
Conor McGregor er ofar á listanum en íþróttamenn á borð við Carmelo Anthony, Zlatan Ibrahimovic og Canelo Alvarez.
Samkvæmt Forbes þjénuðu þeir Conor og Bale 34 milljónir dollara (3,4 milljarðar íslenskra króna) á síðasta ári. Sjö milljónir fékk Conor frá auglýsingasamningum en 27 milljónir fyrir bardaga sína. 2016 var besta ár Conor tekjulega séð enda var hann í aðalbardaganum á þremur risastórum Pay Per View kvöldum UFC gegn Nate Diaz (UFC 196 og UFC 202) og Eddie Alvarez (UFC 205).
Á síðasta ári var Conor í 85. sæti listans með 18 milljónir dollara í tekjur fyrir árið 2015. Conor gæti verið enn ofar á listanum á næsta ári ef bardagi hans gegn Floyd Mayweather verður að veruleika.
Conor var sá eini úr MMA á listanum en boxararnir Canelo Alvarez (28,5 milljónir dollara), Anthony Joshua (22 milljónir dollara) og Wladimir Klitschko (21,5 milljónir dollara) voru einnig á listanum.
Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo var í 1. sæti listans með 93 milljónir dollara (9,2 milljarðar íslenskra króna) í árstekjur.