Cris ‘Cyborg’ Justino berst sinn fyrsta bardaga í Bellator á laugardaginn. Cyborg fer beint í titilbardaga og getur eignast sinn fjórða stóra titil.
Cris ‘Cyborg’ Justino er ein besta bardagakona heims. UFC ákvað að endurnýja ekki samninginn hennar síðasta sumar og samdi hún við Bellator í haust.
Cyborg mætir fjaðurvigtarmeistaranum Julia Budd um beltið á Bellator 238. Með sigri hefur hún verið meistari hjá UFC, Strikeforce, Invicta og Bellator.
Julia Budd (13-2) hefur verið fjaðurvigtarmeistari Bellator síðan 2017 en var þar áður í Invicta og Strikeforce. Einu töpin hennar voru gegn Amanda Nunes og Ronda Rousey en Budd hefur unnið 11 bardaga í röð.
Cyborg er spennt fyrir nýju upphafi hjá Bellator en samband hennar og UFC var stormasamt. Hennar eina tap í UFC var gegn Amanda Nunes og fékk Cyborg ekki tækifæri á að hefna fyrir tapið. Dana White sagði að Cyborg hefði ekki áhuga á að mæta Nunes aftur en Cyborg sagði að það væri hreinn og klár uppspuni. Cyborg lýsti því margoft yfir opinberlega að hún vildi mæta Nunes aftur en ekkert varð úr því.
Bellator 238 fer fram í Kaliforníu á laugardaginn og er bardagi Cyborg og Budd aðalbardagi kvöldsins.