Cris ‘Cyborg’ Justino mun aldrei berjast í bantamvigt samkvæmt nýjustu ummælum hennar. Cyborg berst í fjaðurvigt og segir að niðurskurðurinn í 135 pund væri of erfiður.
Lengi var talað um mögulegan ofurbardaga Cyborg og Rondu Rousey en Cyborg hefði alltaf þurft að létta sig niður í bantamvigt til að geta mætt Rousey. Cyborg er fjaðurvigtarmeistari Invicta en UFC er ekki með fjaðurvigt kvenna.
Cyborg hefur nú sagt að niðurskurðurinn í bantamvigtina yrði of erfiður. Fjaðurvigtin er 145 pund (65,9 kg) á meðan bantamvigtin er 135 pund (61,4 kg) en Cyborg segist ganga um 75-80 kg dags daglega.
Hún réð nýlega til sín næringarfræðinginn Greg Lockhart og átti hann að hjálpa henni að komast niður í bantamvigtina til að mæta Rousey. Greg Lockhart mun áfram hjálpa henni þó bantamvigtin sé úr myndinni.
Cyborg hefur þó mikinn áhuga á að mæta Holly Holm eða Rousey í 140 punda hentivigt. UFC hefur þó alltaf sagt að Cyborg verði að koma niður í 135 pund ef hún ætlar að berjast í UFC. Holm hefur aftur á móti sagt að hún sé til í að mæta Cyborg í hentivigt en Rousey var sjálf aldrei hrifin af þeirri hugmynd á meðan hún var meistari.
Þetta eru ákveðin vonbrigði fyrir bardagaaðdáendur sem höfðu mikinn áhuga á að sjá Cyborg berjast í bantamvigt UFC. Cyborg setur þó sína heilsu í forgang og efast sjálf um að hún yrði sama bardagakona í bantamvigtinni og í fjaðurvigtinni.