Monday, May 20, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz

cruz dillashawAnnað kvöld fer fram afar spennandi UFC bardagakvöld í Boston. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Dominick Cruz og T.J. Dillashaw í bardaga sem margir hafa beðið lengi eftir. Kíkjum á nokkrar ástæður til að horfa á annað kvöld.

Það er ekki oft sem UFC heldur bardagakvöld á sunnudögum en sú er raunin annað kvöld. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3.

  • Besti bardagi í sögu bantamvigtarinnar: Bardagi Dominick Cruz og T.J. Dillashaw er einfaldlega mest spennandi bardagi í sögu bantamvigtarinnar. Cruz var auðvitað fyrrum bantamvigtarmeistari UFC en var sviptur titlinum eftir þrálát meiðsli. Í hans fjarveru var Renan Barao meistari þangað til T.J. Dillashaw gjörsigraði hann í tvígang. Nú fáum við loksins að sjá þessa tvo frábæru bardagamenn leiða hesta sína.
  • Alveg eins en samt gjörólíkir: Það má sjá margt líkt með þeim Cruz og Dillashaw. Báðir voru þeir góðir glímumenn sem urðu frábærir sparkboxarar með óhefðbundinn stíl og eru báðir afar hreyfanlegir. Þeir nota þó hreyfanleikann á ólíkan máta eins og Robin Black sýnir í myndbandinu hér að neðan. Dillashaw er árásargjarnari en Cruz notar hreyfanleikann til að fá engin högg í sig og beitir gagnárásum betur en nokkur annar. Fellur þeirra eru líka ólíkar en Dillashaw fer í fellur þegar andstæðingurinn er að bakka á meðan Cruz skýtur í fellur þegar andstæðingurinn sækir fram.

  • Frábær léttvigtarslagur: Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Eddie Alvarez og fyrrum meistarinn Anthony Pettis. Þetta verður fyrsti bardagi Pettis síðan hann tapaði beltinu til Rafael dos Anjos í mars. Hérna fáum við að sjá tvo ólíka en skemmtilega stíla mætast. Pettis er með eitruð spörk og er betri sparkboxari á meðan Eddie Alvarez er með þungar hendur og afar fær boxari. Samanlagt hafa þeir klárað 36 bardaga sín á milli og má því búast við mjög skemmtilegum bardaga á morgun.
  • Hver slekkur ljósin í þungavigtinni? Á morgun fáum við einnig nokkuð stóran þungavigtarbardaga milli Travis Browne og Matt Mitrione. Síðast sáum við Matt Mitrione tapa fyrir Ben Rothwell eftir tæpar tvær mínútur en hafði þar áður unnið þrjá í röð. 2015 var ekkert sérstakt ár fyrir Browne. Hann tapaði með rothöggi í eina bardaga hans á árinu, var sakaður um heimilisofbeldi og fjölmiðlar smjatta endalaust á sambandi hans og Rondu Rousey. Oftast þegar svona þungavigtarmenn mætast endar það með rothöggi í fyrstu lotu. Hvort verður það Browne eða Mitrione sem slekkur ljósin á mótherjanum á morgun?
  • Felder-Cruickshank: Bæði Paul Felder og Daron Cruickshank eru skemmtilegir bardagamenn en verða að vinna annað kvöld. Felder hefur tapað tveimur bardögum í röð og Cruickshank ekki unnið í þremur bardögum í röð (tvö töp og einn dæmdur ógildur vegna augnpots). Þetta ætti því að verða hörku slagur sem fer líklegast fram standandi að mestu leiti.
  • Fylgstu einnig með: Auk fyrrgreindra bardagamanna er hellingur af skemmtilegum bardögum annað kvöld. Í þremur bardögum Charles Rosa hefur hann tvívegis verið í besta bardaga kvöldsins er alltaf tilhlökkun að sjá hann berjast. Hann mætir Kyle Bochniak á morgun. Bardagi Patrick Cote og Ben Saunders gæti verið skemmtilegur og þá er alltaf gaman að sjá vin okkar Ilir Latifi berjast en hann mætir hinum skemmtilega Sean O’Connell.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular