Dana White, forseti UFC, átti fund með Khabib Nurmagomedov í gær. Dana ætlar að greina nánar frá fundinum á UFC bardagakvöldinu í kvöld.
Khabib Nurmagomedov tilkynnti eftir sinn síðasta bardaga að hann væri hættur. Khabib sagðist ekki vilja berjast án föður síns sem lést í sumar. Khabib greindi frá ákvörðun sinni í október eftir sannfærandi sigur á Justin Gaethje.
Þrátt fyrir tilkynninguna er hann enn ríkjandi léttvigtarmeistari UFC og hefur Dana White vonast eftir því að hann berjist meira. Þeir hittust í gær í Abu Dhabi og áttu góðan fund um framtíðina.
Dana White mun greina frá hver ákvörðun Khabib verður á UFC Fight Night: Kattar vs. Holloway í kvöld. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 20:00 og mun tilkynningin koma þá.
„Ég hitti Khabib Nurmagomedov í gær og í dag klukkan þrjú á Austurströndinni [kl. 20:00 á íslenskum tíma] mun ég tilkynna ákvörðunina á ABC sjónvarpsstöðinni. Það mun hafa áhrif á Poirier-McGregor bardagann í næstu viku og næstsíðasta bardagann á UFC 257 og léttvigtina,“ sagði Dana.
Met with UFC Lightweight Champion @TeamKhabib last night. Will announce his decision LIVE on ABC at 3pm ET #InAbuDhabi @visitabudhabi pic.twitter.com/ztNmrSEBQw
— danawhite (@danawhite) January 16, 2021
Bardagakvöldið í kvöld er það fyrsta á ABC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum en verður sýnt á ViaPlay og Fight Pass hér á Íslandi eins og vanalega.
Næstu helgi fer UFC 257 fram þar sem þeir Conor McGregor og Dustin Poirier mætast í aðalbardaga kvöldsins í léttvigt. Næstsíðasti bardagi kvöldsins verður síðan á milli Dan Hooker og Michael Chandler en hann er einnig í léttvigt.
Það verður því gríðarlega áhugavert að sjá hver tilkynningin verður en hugsanlega er Khabib ekki hættur eftir allt saman.