0

Dana White ætlar að greina frá ákvörðun Khabib í kvöld

Dana White, forseti UFC, átti fund með Khabib Nurmagomedov í gær. Dana ætlar að greina nánar frá fundinum á UFC bardagakvöldinu í kvöld.

Khabib Nurmagomedov tilkynnti eftir sinn síðasta bardaga að hann væri hættur. Khabib sagðist ekki vilja berjast án föður síns sem lést í sumar. Khabib greindi frá ákvörðun sinni í október eftir sannfærandi sigur á Justin Gaethje.

Þrátt fyrir tilkynninguna er hann enn ríkjandi léttvigtarmeistari UFC og hefur Dana White vonast eftir því að hann berjist meira. Þeir hittust í gær í Abu Dhabi og áttu góðan fund um framtíðina.

Dana White mun greina frá hver ákvörðun Khabib verður á UFC Fight Night: Kattar vs. Holloway í kvöld. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 20:00 og mun tilkynningin koma þá.

„Ég hitti Khabib Nurmagomedov í gær og í dag klukkan þrjú á Austurströndinni [kl. 20:00 á íslenskum tíma] mun ég tilkynna ákvörðunina á ABC sjónvarpsstöðinni. Það mun hafa áhrif á Poirier-McGregor bardagann í næstu viku og næstsíðasta bardagann á UFC 257 og léttvigtina,“ sagði Dana.

Bardagakvöldið í kvöld er það fyrsta á ABC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum en verður sýnt á ViaPlay og Fight Pass hér á Íslandi eins og vanalega.

Næstu helgi fer UFC 257 fram þar sem þeir Conor McGregor og Dustin Poirier mætast í aðalbardaga kvöldsins í léttvigt. Næstsíðasti bardagi kvöldsins verður síðan á milli Dan Hooker og Michael Chandler en hann er einnig í léttvigt.

Það verður því gríðarlega áhugavert að sjá hver tilkynningin verður en hugsanlega er Khabib ekki hættur eftir allt saman.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.