Dana White var í SportsCenter á ESPN fyrr í kvöld þar sem hann ræddi Conor-Floyd bardagann. Þeir Conor McGregor og Floyd Mayweather mætast á boxkvöldi þann 26. ágúst.
Bardaginn fer fram í 154 pundum og verður barist með 10 únsu hanska. Þetta verður fyrsti atvinnubardagi Conor í boxi á meðan Floyd er 49-0 og einn besti boxari allra tíma. Floyd er nú þegar talsvert sigurstranglegri hjá veðbönkum og ekki margir sem tippa á að Conor eigi möguleika gegn Floyd.
„Conor er 100% viss um að hann vinni bardagann. Það er langt síðan ég hætti að efast um Conor McGregor,“ sagði White.
White sagði að samningaviðræður hefðu gengið nokkuð vel. „Floyd er umkringdur mjög kláru fólki og við náðum að klára þetta. Óhugsandi samningurinn er nú klár.“
Báðir bardagamenn munu þéna umtalsverða upphæð á bardaganum og efast margir um að Conor muni snúa aftur í UFC eftir bardagann. White er ekki á sama máli og sagði að Conor vilji berjast í UFC áður en árið verður úti. „Það er ein af milljón ástæðunum fyrir því hvers vegna fólk elskar Conor.“
Mayweather sagði á sínum tíma að hann myndi ekki snúa aftur í hringinn nema fyrir 100 milljónir dollara. White gat þó ekki greint frá upphæðunum sem þeir Conor og Floyd munu fá nema að upphæðirnar séu afar háar.
„Það er enginn ósáttur við þennan samning. Samningaviðræðurnar við Floyd gengu frábærlega. Allt gekk vel með Conor. Þetta var mun auðveldara en ég bjóst við og allir ganga sáttir frá borði.“