Dana White, forseti UFC, var vægast sagt ósáttur með störf dómarans Mario Yamasaki í gær. Yamasaki stöðvaði bardaga í gær á slæmum tímapunkti en þetta er ekki í fyrsta sinn sem White gagnrýnir störf Yamasaki.
Mario Yamasaki var dómarinn í bardaga Kevin Lee og Michael Chiesa í nótt en þetta var aðalbardagi kvöldsins. Kevin Lee var búinn að læsa „rear naked choke“ hengingu á Michael Chiesa undir lok 1. lotu. Yamasaki stöðvaði hins vegar bardagann áður en Chiesa tappaði út. Lee var búinn að læsa hengingunni en Chiesa var enn við meðvitund og kvartaði strax undan störfum Yamasaki um leið og hann stöðvaði bardagann. Það er ómögulegt að vita hvort Chiesa hefði sloppið úr hengingunni eða ekki en hann ætti að minnsta kosti fá að njóta vafans enda var hann enn við meðvitund.
Dana White hraunaði yfir Yamasaki á Instagram eftir bardagann.
White kallaði Yamasaki Mario Mazzagatti og vísaði þar til dómarans Steve Mazzagatti sem var á sínum tíma margoft gagnrýndur fyrir störf sín. Yamasaki hefur oft sofið á verðinum í búrinu og stöðvað bardaga alltof seint en í þetta sinn stöðvaði hann bardagann of snemma.
UFC úthlutar ekki dómurum á bardagana heldur eru það íþróttasamböndin í hverju ríki fyrir sig. Chiesa sagði eftir bardagann að Yamasaki ætti aldrei að fá að dæma aftur. Hér að neðan má sjá myndband af atvikinu.
Was it a legit finish? Kevin Lee with a submission on Michael Chiesa that we’ll be talking about for awhile! #UFCOKC https://t.co/mOFBUonnem
— FOX Sports: UFC (@UFCONFOX) June 26, 2017