Dana White, forseti UFC, segir að Amanda Nunes hafi fengið leyfi frá læknum til að berjast. Hún hafi hins vegar metið það sjálf að hún gæti ekki barist og fellur bardaginn því niður.
Amanda Nunes hefur átt við veikindi að stríða þessa vikuna. Í dag og í gær fór hún upp á spítala og hefur titilbardagi hennar gegn Valentinu Shevchenko verið felldur niður.
Dana White, forseti UFC, talaði við Megan Olivi fyrr í kvöld. „Henni leið ekki vel í gær þannig að við sendum hana á sjúkrahús í skoðun en hún var í lagi,“ sagði White.
„Hún náði vigt og gerði sitt. Í morgun hringdi hún í mig og sagði mér að sér liði ekki vel þannig að við fórum með hana á sjúkrahús og létum hana fá næringu í æð en hún var búin að ákveða sig að berjast ekki. Amanda Nunes er læknisfræðilega fær um að berjast en henni líður ekki vel.“
Dana White sagði enn fremur að hann vonast eftir að bóka bardagann aftur á UFC 215 þann þann 9. september.