Daniel Cormier staðfesti í gær að hann ætli sér að taka einn bardaga í viðbót. Cormier segir að hann og Stipe Miocic munu klára trílogíu sína.
Daniel Cormier tapaði þungavigtarbeltinu sínu til Stipe Miocic í ágúst. Miocic rotaði Cormier í 4. lotu í skemmtilegum bardaga en Cormier vann fyrsta bardagann í júlí 2018. Dana White sagði í síðustu viku að UFC ætli sér að láta þá mætast í þriðja sinn enda báðir eru með sigur gegn hvor öðrum.
Cormier greindi frá þessu í The MMA Show með Ariel Helwani í gær. „Ég mun berjast við Stipe aftur. Hvort sem ég vinn eða tapa mun ég ekki berjast aftur eftir það. Þetta verður í síðasta sinn sem ég stíg í búrið,“ sagði Cormier.
Cormier vonast eftir að bardaginn verði á dagskrá í desember en Stipe Miocic er enn að jafna sig eftir síðasta bardaga og því óvíst hvenær hann verður tilbúinn. Ef UFC nær að bóka þriðja bardaga þeirra er spurning hvað UFC ætlar að gera með Francis Ngannou en Ngannou hefur unnið þrjá bardaga í röð.