spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÆtti Demetrious Johnson að berjast við T.J. Dillashaw?

Ætti Demetrious Johnson að berjast við T.J. Dillashaw?

Demetrious Johnson er nú í opinberri deilu við UFC um sinn næsta bardaga. UFC vill að hann berjist við T.J. Dillashaw en Johnson er ekki á sama máli. En ætti Johnson að taka bardagann?

Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson hefur ekki mikinn áhuga á að mæta fyrrum bantamvigtarmeistaranum T.J. Dillashaw. Bardagasamtökin hafa hins vegar hótað því að leggja niður fluguvigtina taki hann ekki bardagann gegn T.J. Dillashaw. Afstaða UFC er fáranleg (og eflaust innantóm hótun) en ætti Demetrious Johnson að taka boðinu? Hér höfum við farið yfir kostina og gallana sem myndi fylgja því ef Johnson tekur bardagann gegn Dillashaw.

Demetrious Johnson ætti að taka bardagann af því að…

Þetta er gott tækifæri fyrir Johnson til að sanna að hann sé sá allra besti

Margir eru á því að Demetrious Johnson sé besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, og sumir segja að hann sé sá besti allra tíma. Það eru þó margir á því að fluguvigtin sé ekki það sterkur flokkur til að hægt sé að segja að hann sá allra besti. Sigur á T.J. Dillashaw væri fullkomið tækifæri til að sýna og sanna að hann sé einn af þeim bestu, pund fyrir pund.

Þetta yrði hans stærsti bardagi

Þetta er besta tækifæri Johnson til að fá stóran bardaga. T.J. Dillashaw er margfalt þekktara nafn en Ray Borg og Wilson Reis og yrði þetta hans stærsti bardagi í UFC. Johnson vill fá stóra bardaga og er þetta því kjörið tækifæri.

Það er enginn annar í boði

Með fullri virðingu fyrir Ray Borg þá hefur hann bara ekki gert nóg til að verðskulda titilbardaga. Staðan er því miður sú að Johnson hefur unnið flesta í fluguvigtinni og er enginn eftir sem er einhver alvöru áskorun á þessum tímapunkti. Ray Borg er 5-2 í UFC, með aðeins tvo sigra í röð og hefur tvívegis mistekist að ná fluguvigtartakmarkinu í UFC. Í flestum öðrum þyngdarflokkum væri þetta ekki nóg til að fá titilbardaga.

Þetta yrði geðveikur bardagi

Allir bardagaaðdáendur vilja sjá TJ mæta DJ. Þetta er einfaldlega ótrúlega spennandi bardagi sem bardagaaðdáendur vilja virkilega sjá. Tveir ótrúlega tæknilegir bardagamenn á öllum vígstöðum bardagans með fáa veikleika. Veisla fyrir aðdáendur!

Demetrious Johnson ætti að hafna bardaganum af því að..

Þetta gæti sett tvo þyngdarflokka á bið

Hversu mikið höfum við bölvað bardaga Georges St. Pierre og Michael Bisping? Sá bardagi hefði sett allt á bið í millivigtinni sem er auðvitað óþolandi. Bardagi Dillashaw og Johnson gæti sett allt á bið bæði í fluguvigtinni og hugsanlega bantamvigtinni líka. Þarna er Johnson að reyna að gera það rétta í stöðunni að sínu mati og ekki hleypa Dillashaw fram fyrir röðina. Við viljum að þetta sé alvöru íþrótt og að réttmætur áskorandi fái alltaf næsta titilbardaga en ekki einhver sem selur betur. Viljum við bara að þetta sé alvöru íþrótt þegar það hentar okkur?

Við vitum ekki hvort Dillashaw geti náð 125 pundum

T.J. Dillashaw hefur aldrei barist í 125 punda fluguvigtinni. Johnson vill ekki taka sénsinn á að samþykkja bardaga gegn Dillashaw þar sem Dillashaw hefur aldrei barist í fluguvigt. Ef Dillashaw nær ekki vigt yrði bardaginn ekki titilbardagi. Johnson hefur reyndar sagt að hann myndi ekki samþykkja bardagann ef í ljós kæmi (t.d. daginn fyrir bardagann í vigtuninni) að Dillashaw myndi ekki ná vigt. Reyndar sagði Dillashaw í vikunni að hann væri orðinn 143 pund og að niðurskurðurinn yrði lítið mál.

Við vitum ekki hvað gerist ef Dillashaw vinnur

Ef Dillashaw vinnur verður hann fluguvigtarmeistari UFC. En hvað svo? Ætlar hann að vera áfram í fluguvigtinni og verja beltið þar? Það er ansi líklegt að hann fari aftur upp í bantamvigt enda bíður hans stór bardaga þar..

Þetta gæti skemmt Cody Garbrandt gegn Dillashaw

Einn af mest spennandi bardögum ársins hefði verið viðureign Cody Garbrandt og Dillashaw um bantamvigtartitilinn. Garbrandt meiddist því miður og getur ekki varið titilinn í sumar eins og stóð til. Ekki er vitað hvenær hann getur snúið aftur en fari Dillashaw niður í fluguvigt gæti það komið í veg fyrir þann frábæra bardaga. UFC eyddi ágætis fjárhæðum í kynningu á bardaganum og eru þeir nú þjálfarar í nýjustu seríu The Ultimate Fighter.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular