spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaDiego Björn: Þeir gera ráð fyrir að hann vinni mig

Diego Björn: Þeir gera ráð fyrir að hann vinni mig

Diego Björn Valencia verður í aðalbardaganum þegar Fightstar 17 fer fram á laugardaginn. Diego mætir þá heimamanni og ætlar Diego ekki að vera eitthvað fallbyssufóður fyrir efnilegan bardagamann.

Þrír Íslendingar berjast á kvöldinu en auk Diego munu þau Dagmar Hrund og Haraldur Arnarson úr Reykjavík MMA berjast áhugamannabardaga.

Diego mætir Luke Trainer í léttþungavigt en Diego kýs helst að berjast í millivigt en hefur oft barist í léttþungavigt þar sem hann stekkur inn með skömmum fyrirvara.

Andstæðingurinn er 1-0 sem atvinnumaður en hann er fyrrum þungavigtar- og léttþungavigtarmeistari áhugamanna hjá Fightstar bardagasamtökunum. Trainer er 23 ára gamall og var hann 7-1 sem áhugamaður.

„Þeir hjá Fightstar hafa greinilega mikla trú á honum fyrst þeir eru að setja hann í main event þó hann sé bara 1-0 sem atvinnumaður. Mögulega of mikla trú þar sem þeir eru þegar byrjaðir að leita að andstæðingi fyrir 2-0 pro léttþungavigtarmann fyrir næsta Fightstar card og gera eflaust ráð fyrir að hann vinni mig,“ segir Diego.

Diego er 3-2 sem atvinnumaður en búandi á Íslandi eru tækifærin af skornum skammti. Diego barðist síðast í apríl 2018 þegar hann sigraði Dawid Panfil með triangle hengingu í 2. lotu. Diego býst við að verið sé að nota sig til að byggja upp Luke Trainer.

„Nú hef ég verið atvinnumaður í 5 ár og verður þetta bara sjötti bardagi minn á þeim tíma og það þótt ég taki nánast alla bardaga sem mér bjóðast og hef ekki verið neitt meiddur. En það er bara þannig að þeir bardagar sem bjóðast eru annað hvort late replacement bardagar með nokkurra daga fyrirvara eða eins og núna, verið að nota mann til þess að byggja upp einhvað prospect sem er erfitt að finna bardaga fyrir.“

Diego er vanur að stökkva inn með skömmum fyrirvara en fyrir þennan bardaga fékk hann rúman mánuð til að undirbúa sig sem er óvenjulegt fyrir hann.

„Ég fékk t.d fínan fyrirvara þegar ég barðist við Mikkel Casper sem var þá nýbúinn að vinna heimsmeistaratitil áhugamanna í MMA og var Danmerkurmeistari í júdó. Og svo var mér einu sinni boðið að taka bardaga í Brasilíu við Rodolfo Viera í léttþungavigt sem er einhver albesti glímumaður á jörðinni og búinn að vera mjög duglegur að taka lýsið sitt. Ég var þá 1-1 og að keppa í millivigt svo ég afþakkaði það.“

„Ég fékk rúman mánuð í fyrirvara núna og er búinn að æfa mjög vel fyrir þennan bardaga. Ég er búinn að vera mjög heppinn að hafa Julius sem æfingafélaga. Hann er tveir metrar á hæð, 100 kg, orthodox og 10 árum yngri en ég. Sem er eins líkt andstæðingnum og hægt er. Julius er búinn að standa sig eins og hetja en við höfum líklega tekið yfir 100 lotur í búrinu síðustu mánuði. En hann er svo einmitt að fara keppa á Evrópumóti áhugamanna í MMA í júní. Svo hef ég fengið að boxa við Þorgrím úr boxinu en hann er 210 cm svo ég ætti að vera vel undirbúinn fyrir hávaxinn andstæðing.“

Auk þess að fá fínan tíma til að undirbúa sig hefur Diego verið í styrktar- og þrekþjálfun hjá Unnari Helgasyni undanfarnar vikur.

„Unnar er búinn að vera með hörku styrktarprógram í gangi með keppnisliðinu tvisvar í viku svo ég tel mig vera í mínu besta formi sem er eitthvað annað en síðast þegar ég barðist með fjögurra daga fyrirvara og þurfti að skera mikið niður. Nú er ég kominn á þyngd tveimur dögum fyrir bardagann.“

Diego ferðast til Lundúna í fyrramálið [föstudegi] ásamt þjálfaranum Luka Jelcic. „Luka er nýr yfirþjálfari keppnisliðs Mjölnis og er hann mjög tæknilegur og hann hefur hjálpað mikið á nánast öllum sviðum í MMA.“

„Ef allt fer samkvæmt áætlun þá forðast ég skaða standandi, slæ eða tek niður og næ mínum fjórða sigri í MMA með uppgjafartaki. Svo mæti ég í járnun næstu helgi þar sem ég fæ brúnt belti, burger og bjór.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular