Þrátt fyrir 12 ára aldursmun eiga þeir Diego Sanchez og Michel Pereira ýmislegt sameiginlegt. Þeir eru meðal skrautlegustu bardagamanna UFC í dag og mætast á laugardaginn.
Diego Sanchez hefur verið í UFC síðan hann vann fyrstu seríu The Ultimate Fighter árið 2005. Hinn 38 ára gamli Sanchez kláraði samninginn sinn við UFC með tapi gegn Michael Chiesa í sumar. Flestir töldu að það væru endalokin á 14 ára ferli Sanchez í UFC. Sanchez fékk hins vegar einn samning í viðbót og berst um helgina.
Diego Sanchez er með þeim furðulegri í UFC en það er Michel Pereira líka. Pereira hefur verið mun skemur í UFC en bardagar hans hafa verið vægast sagt athyglisverðir. Pereira byrjaði á að rota Danny Roberst í 1. lotu en með sigrinum fylgdu ýmis handahlaup og heljarstökk.
Í hans öðrum bardaga mætti hann Tristan Connelly og var Pereira mun sigurstranglegri fyrir bardagann. Connelly var mun minni, kom inn með tæplega viku fyrirvara og virtist bara vera meðal bardagamaður.
Pereira byrjaði bardagann á nokkrum heljarstökkum, fljúgandi hnéspörkum, stökkvum af búrinu og handahlaupum. Pereira reyndi að klára Connelly í 1. lotu en þegar það tókst ekki var hann gjörsamlega búinn á því. Connelly fór leikandi létt með hann eftir það.
Nú mætir Pereira reynsluboltanum Diego Sanchez. Pereira er mun stærri bardagamaður og barðist áður í léttþungavigt og millivigt. Diego Sanchez hefur barist lengst af í veltivigt en hefur einnig barist í fjaðurvigt, léttvigt og millivigt. Báðir hafa því barist í nokkrum þyngdarflokkum en mætast nú í veltivigt.
Pereira er líklegri til að ná rothögginu en ef Sanchez lifir af 1. lotuna mun reynslan taka yfir. Sanchez er ekkert sérstaklega góður standandi, hakan ekki eins sterk en Sanchez getur ennþá tekið menn niður og stjórnað þeim í gólfinu.
Þó bardaginn hafi litla þýðingu fyrir veltivigtina er þetta gríðarlega áhugaverður bardagi þar sem báðir eru afar skrautlegir en mjög ólíkir.