Þeir Donald Cerrone og Robbie Lawler áttu að mætast á UFC 213 þann 8. júlí. MMA Fighting greinir hins vegar frá því að Cerrone sé meiddur og geti ekki barist á UFC 213.
Þetta eru skelfilegar fréttir enda einn mest spennandi bardaginn á UFC 213. Samkvæmt heimildum MMA Fighting er Donald Cerrone meiddur og getur því ekki barist á UFC 213. Hann gæti þó barist á UFC 214 þann 29. júlí en meiðslin eru ekki talin alvarleg. Bardaginn verður því líklegast færður á UFC 214 í stað þess að leita að nýjum andstæðingi fyrir Robbie Lawler á UFC 213.
Þetta er annar stóri bardaginn sem fellur niður á UFC 213 en bardagi Cody Garbrandt og T.J. Dillashaw getur ekki farið fram vegna meiðsla Garbrandt. Þær Amanda Nunes og Valentina Shevchenko mætast í aðalbardaga kvöldsins um bantamvigtartitil kvenna en bráðabirgðartitill í millivigtinni verður einnig í húfi þegar þeir Yoel Romero og Robert Whittaker mætast.
Þetta er í annað sinn sem bardagi Lawler og Cerrone frestast. UFC vildi upphaflega setja þá á UFC 205 í New York en Lawler dróg sig fljótlega úr bardaganum. Vonandi mun bardaginn vera færður til UFC 214. Allt er þá þrennt er?