Drew Dober sigraði Josh Burkman á UFC 214 í Kaliforníu um síðustu helgi. Í nýju vigtunarreglum Kaliforníu eru bardagamenn einnig vigtaðir á keppnisdag en í ljós hefur komið að Dober var afar þungur þegar hann keppti.
Drew Dober keppti í 155 punda léttvigt á laugardaginn. Hann vigtaði sig inn 155 pund (70,3 kg) á föstudeginum og sömuleiðis andstæðingurinn Josh Burkman. Því fór bardaginn fram eins og gengur og gerist en Dober sigraði með rothöggi í 1. lotu.
Þetta var fyrsta bardagakvöld UFC í Kaliforníu eftir að nýju vigtunarreglurnar tóku gildi. Hann var því einnig vigtaður á keppnisdegi og var þá 183 pund (83 kg) eða 28 pundum (12,7 kg) yfir léttvigtartakmarkinu. Dober bætti á sig tæpum 13 kg á rúmum sólarhringi.
Bardagamenn mega ekki vera meira en 10% yfir þyngdarmörkum á keppnisdegi samkvæmt nýju reglunum en Dober var 18% yfir 155 pundunum. Reglurnar kveða ekki um að bardagamönnum sé ekki heimilað að keppa þó þeir séu langt yfir mörkunum á keppnisdegi. Íþróttsamband Kaliforníu ríkis vill sjá Dober fara upp um flokk nema hann fái leyfi læknis til að halda áfram í léttvigtinni.
Í reglunum segir að mælt verði með að bardagamenn fari upp um flokk þegar þeir keppa næst ef þeir eru meira en 10% yfir þyngdarmörkunum líkt og Dober. Það mun núna reyna á hvernig kerfið virkar og hvernig íþróttasamböndin munu vinna saman. Íþróttasambandið í Kaliforníu er það eina með þessar nýju vigtunarreglur og verður áhugavert að sjá hvort Dober fái að keppa áfram í léttvigtinni utan Kaliforníu ríkis.
Dober sagði í samtali við MMA Fighting að niðurskurðurinn hafi ekki verið neitt sérstaklega erfiður. Hann er ekki tilbúinn til að taka þá ákvörðun strax hvort hann fari upp um flokk eða heldur sér í léttvigtinni. Dober ætlar að skoða möguleikana en veltivigtin heillar ekki mikið eins og er þar sem hann er fremur lágvaxinn (173 cm á hæð). Dober er að eigin sögn frekar þykkur bardagamaður og mun annað hvort reyna að létta sig til að halda sér í léttvigtinni eða bæta meiri vöðvamassa og fara upp í veltivigt. Lýtur hann á Tyron Woodley (175 cm á hæð) sem ákveðna fyrirmynd en Woodley er sömuleiðis fremur lágvaxinn í veltivigtinni. Þá segir Dober að nýr 165 punda flokkur væri fullkominn fyrir sig en ekkert bendir til að sjá flokkur sé á leið í UFC á næstunni.