Egill Øydvin Hjördísarson sigraði á dögunum Matt Hodgson með rothöggi eftir aðeins sjö sekúndur. Egill er ósigraður í þremur bardögum en við spjölluðum við hann um bardagann, slæma fortíð og heilbrigt líferni.
Egill Øydvin Hjördísarson (3-0) sigraði bardagann eftir aðeins sjö sekúndur og segir hann að þetta hafi komið sér mikið á óvart. Eftir svo stuttan bardaga var ennþá mikil orka í honum og átti hann erfitt með svefn um kvöldið.
„Maður var búinn að vera smeykur allt kvöldið, peppa sig upp andlega að fara í þessi átök. Þegar ég kom í búrið var adrenalínið á fullu, það var eins og allt væri í slow motion. Bardaginn byrjaði, sá hann koma inn, eitt spark, annað spark og hann dettur niður. Ég var rosalega hissa fyrst, trúði ekki að þetta væri bara strax búið. Það var enn svo mikil orka í mér, mér leið eins og ég væri að springa úr orku allt kvöldið og átti erfitt með að sofna um kvöldið. Það var allt á yfirsnúningi og ég fékk ekki þessa útrás sem maður fær venjulega í bardaga,“ segir Egill.
Egill segir að boxið sitt sé betra en spörkin en hann hafði æft rothöggssparkið sérstaklega. „Ég var svo hissa að ég missti mig í fagnaðinum. Ég var svo ánægður að eitthvað sem ég var búinn að vera að æfa aftur og aftur með Jóni Viðari (formaður Mjölnis og einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis) skyldi hafa virkað svona vel,“ segir Egill en í upphituninni einbeitti hann sér mikið af spörkunum. „Þetta smellhitti og það var bara frábært.“
Í bardaganum náði Egill sparki í skrokkinn skömmu áður en hásparkið lenti. Var eitthvað í vörn Hodgson sem gerði það að verkum að hann ákvað að fara í háspark næst?
„Já ég sá hann koma inn og sá hann taka stóra yfirhandarhægri og um leið og hann lyfti hendinni náði ég bodykick. Ég sá þegar sparkið hitti að hann reyndi að færa olnbogann niður til að verja sparkið þannig að ég ákvað að sparka aftur á sama stað. Þegar ég sá hendurnar koma aftur niður ákvað ég að fara hærra með sparkið. Þá náði ég yfir vörnina og hitti beint á hökuna. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að vera að nota mikið á æfingum og það hefur verið að virka.“
Fyrirfram bjóst Egill við villtum bardaga þar sem Hodgson er góður boxari og var planið að halda honum frá sér. „Ég vissi að ég myndi vinna, það var engin spurning um það. Ég bjóst við að ég myndi standa með honum smá, taka hann svo niður og vinna út frá gólfglímunni þar sem ég veit að veikleikinn hans er þar. Ég vissi samt að hann væri búinn að vinna mikið í clinchinu og gólfglímunni síðustu fjóra mánuði þannig að ég hélt að þetta yrði bardagi sem ég gæti horft á aftur og séð hvort ég væri tilbúinn í að fara í atvinnumannabardaga, en svo var ekki,“ segir Egill en hann vill fá meiri reynslu í áhugamannabardögum áður en haldið er í atvinnumannabardaga.
„Markmiðið er að taka atvinnumannabardaga seinna á árinu en mig vantar smá reynslu inn í búrinu. Maður græðir samt alltaf helling á fara í búrið að keppa. Það sem ég tek úr þessum bardaga er að ég kann að róa mig andlega og róa hausinn. Þegar ég labbaði inn í búrið fann ég ekki fyrir neinu stressi, engri pressu. Það voru um 2400 áhorfendur í salnum en ég fann ekkert fyrir þeim og fannst eins og allir væru þarna að hvetja mig, að horfa á mig.“
Egill byrjaði í Mjölni í janúar 2012 og hafði þá enga reynslu af bardagaíþróttum. Hann byrjaði fyrst í Víkingaþrekinu en í apríl sama ár tók hann sinn fyrsta tíma í brasilísku jiu-jitsu.
„Áður en ég byrjaði í Mjölni var ég svolítið týndur. Ég drakk mikið og illa, eiginlega allar helgar og var í slæmum félagsskap. Fólk í kringum mig var að gera mikið af hlutum sem mann langar ekki að vera að umgangast, fíkniefni og alls konar bull. Ég sjálfur var fullur niður í bæ allar helgar djammandi og hélt að það væri lífið. Allt í einu fékk ég ógeð af þessu og hugsaði með mér, ‘er þetta allt sem lífið hefur upp á að bjóða?’ Maður var á djamminu eins og vitleysingur, alltaf að neyða sig í vinnuna og peningarnir fóru svo í bjór í bænum.“
Egill hafði heyrt góða hluti um Mjölni og langaði fyrst og fremst að læra að verja sig. „Ég asnaðist eiginlega inn í Mjölni. Ég var svolítið feitur og mig langaði að komast í form. Ég var líka alltaf pínu hræddur þannig að mig langaði að læra að verja mig. Þess vegna kom ég hingað í Mjölni. Ég hef aldrei fúnkerað í einhverju gymmi, World Class eða álika, ég er bara eins og hauslaus hæna þegar ég fer þar inn.“
Það hefur orðið mikil breyting á lifnaðarháttum Egils síðan hann byrjaði í bardagaíþróttum. „Þegar ég hugsa til baka þá gleymi ég oft að ég hafi verið í einhverju svona rugli, maður er svo reglulegur í dag. Ég læt ekkert óhollt ofan í mig, drekk ekki, fer ekki í bæinn nema ég sé að vinna, lifi heilbrigðu lífi og er á leið í atvinnumennsku í íþrótt. Þetta er svo rosalega súrealískt, þegar ég horfti til baka er þetta eins og vondur draumur.“
Egill átti erfiða æsku og segir hann það hafa hjálpað sér þegar hann byrjaði í íþróttinni. „Ég var lagður mikið í einelti og það hjálpaði kannski til við að koma mér þar sem ég er í dag. Maður var kýldur og strítt mikið í grunnskóla og ég þakka því fólki eiginlega fyrir í dag. Hefði ég ekki verið svona hræddur hefði ég aldrei farið í Mjölni til að læra að verja mig. Þannig gat ég fyrirgefið fortíðinni eftir að ég kom hingað.“
Á þeim tíma sem Egill lifði óheilbrigðu lífi sá hann ekkert rangt við sína hegðun en í dag er hann á öðru máli.
„Mér fannst ekkert af því að djamma allar helgar því allir sem ég þekkti djömmuðu allar helgar. Þegar þú ert djammari þá ertu bara að umgangast djammara og þá virðist þetta vera geðveikt eðlilegt. Ég get þakkað móður minni fyrir að benda mér á þetta. Hún spurði mig hvort ég ætlaði að gera þetta alla ævi og sagði að ég væri að verða fyllibytta. Þá áttaði ég mig á því að það væri engin framtíð í þessu. Ég er bara rosalega feginn að hafa gripið tækifærið þegar ég sá þetta. Það er ekkert sjálfgefið að snúa við blaðinu, maður sér marga krakka úr æsku sem eru fastir í þessu, djammandi allar helgar aftur og aftur og eru þrælar áfengis.“
„Mér fannst þetta óviðeigandi af mömmu minni á þeim tíma, ‘hver er hún að segja að ég sé einhver fyllibytta, ég er bara að njóta mín á djamminu’ hugsaði ég. Í dag get ég þakkað henni allt saman, allt sem er að gerast í dag er af því að fjölskyldan stóð með mér og hjálpaði mér að snúa við blaðinu.“
Eins og áður segir byrjaði Egill að æfa bardagaíþróttir fyrir þremur árum síðan og hefur hann náð langt á skömmum tíma. „Ég er öfgamanneskja, ef ég geri eitthvað þá geri ég það vel, ef ég borða pizzu þá klára ég hana, sama með MMA. Ég kom á fyrstu æfinguna í Mjölni 2012 og ég hef ekki farið úr Mjölni síðan. Ég er hérna þrjá til fimm tíma á dag, æfi að meðaltali tvo tíma á dag og svo er ég að dunda mér í tækni eða öðru í klukkutíma. Mér finnst einnig ógeðslega gaman að slaka á hérna og spjalla við fólkið.“
„Allt mitt félagslíf er í rauninni í Mjölni, ég hef verið að kenna mikið upp á síðkastið og er með einkatíma, kærastan mín æfir líka hérna þannig að það eru meiri líkur á að hitta á mig í Mjölni en heima,“ segir Egill og hlær.
Það er greinilegt að Egill er á réttri leið í íþróttinni og ef hann heldur þessu áfram á hann eftir að ná langt. Við þökkum Agli kærlega fyrir þetta viðtal og óskum honum velfagnaðar í framtíðinni. Þeir sem vilja fylgjast betur með Agli geta kíkt á Facebook síðu hans hér.
Bara flottur !
Flott viðtal og flottur karakter hann Egill!
Tuu ert bara flottastur 😉