spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentEr Cain ennþá sami bardagamaður árið 2019?

Er Cain ennþá sami bardagamaður árið 2019?

Cain Velasquez mætir Francis Ngannou á sunnudaginn í hans fyrsta bardaga í langan tíma. Stóra spurningin fyrir helgina er hvort Cain Velasquez sé ennþá sami bardagamaður árið 2019.

Þegar Cain Velasquez stígur í búrið á sunnudaginn verða 953 dagar liðnir síðan hann barðist síðast. Þá sáum við hann gjörsigra Travis Browne í 1. lotu með einni bestu frammistöðu ferilsins. Hringspörk, hraði, kraftur og endalaus pressa var til staðar – allt sem einkenndi Cain upp á sitt besta fyrir utan kannski hringspörkin sem komu verulega á óvart.

Núna er hann orðinn 36 ára gamall og er erfitt að segja hvar hann stendur í dag sem bardagamaður. Hann hefur verið þjakaður af meiðslum lengi og vilja margir meina að hann hefði orðið besti þungavigtarmaður sögunnar ef hann hefði haldist meira heill.

Á sunnudaginn mætir hann Francis Ngannou sem hefur átt misjafnar frammistöður síðasta árið. Hann tapaði titilbardaga sínum gegn Stipe Miocic í erfiðum bardaga og átti svo hræðilega frammistöðu þegar hann tapaði fyrir Derrick Lewis í einum versta bardaga allra tíma. Ngnanou kom þó með fína endurkomu þegar hann rotaði Curtis Blaydes eftir aðeins 45 sekúndur í nóvember.

Stærstu veikleikar Ngannou hafa alltaf verið felluvörn og þol. Stipe Miocic nýtti sér það ansi vel en við fengum ekki að sjá neinar framfarir þar í 45 sekúndna sigrinum gegn Curtis Blaydes. Við vitum því ekki alveg hvernig þessir veikleikar Ngannou eru í dag.

Það skemmtilega við þennan bardaga er að þetta mun sennilega bara fara tvær leiðir. Annað hvort verður þetta fljótt rothögg hjá Ngannou eða Cain hakkar hann í sig hægt og rólega yfir nokkrar lotur. Langt kvöld fyrir Ngannou eða stutt kvöld fyrir Cain.

Fyrsta mínútan mun eflaust segja okkur mikið um hvernig bardaginn mun spilast. Ef Ngannou getur stoppað fyrstu felluna væri það áhugavert. En Cain getur ekki bara skotið í lappirnar á honum strax, hann mun reyna að pressa hann og koma honum að búrinu og skjóta þaðan. En á meðan hann er að þjarma að honum getur Ngannou komið með eina stóra bombu.

Þegar Cain er upp á sitt besta er hann nánast óstöðvandi. Endalaust þol, endalaus pressa, tugir högga og er virkilega erfitt að halda í við hann. Spurningin er hins vegar hvernig Cain stendur árið 2019. Mögulega er hann hægari og meiðslin farin að segja til sín. Það er ómögulegt fyrir okkur að vita fyrr en bardaginn byrjar.

Það má alveg búast við að Ngannou roti Cain eftir 60 sekúndur eða minna en það sem væri sennilega flottast fyrir Ngannou væri ef hann myndi stoppa nokkrar fellur og rota hann í 2. lotu t.d. Við vitum alveg að hann getur rotað menn strax en spurningin er hvort hann geti rotað þegar hann þarf aðeins að vinna fyrir hlutunum.

Bardaginn er eðlilega mikilvægur fyrir þungavigtina þó Cain sé í flókinni stöðu enda er æfingafélagi hans og vinur sjálfur meistarinn Daniel Cormier. Ngannou getur komist í fína stöðu með sigri en meistarinn er ennþá meiddur og er óvíst hvenær hann berst næst og gegn hverjum. Búast má við hörku bardaga enda alltaf gaman þegar tveir heimsklassa þungavigtarmenn eigast við.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular