spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentEr fjaðurvigtin rétta skrefið fyrir Anthony Pettis?

Er fjaðurvigtin rétta skrefið fyrir Anthony Pettis?

Mynd: David Banks-USA TODAY Sports
Mynd: David Banks-USA TODAY Sports

Í kvöld fáum við að sjá frumraun Anthony Pettis í fjaðurvigtinni. Eftir langa veru í léttvigtinni hefur Anthony Pettis ákveðið að færa sig niður í fjaðurvigtina. En er það rétta skrefið fyrir hann?

Anthony Pettis hefur alltaf verið í léttvigtinni og var UFC meistarinn þar í rúmt ár. Pettis hefur sýnt oft á tíðum ótrúleg tilþrif eins og t.d. „Showtime“ sparkið fræga þegar hann spyrnti sér af búrinu og sparkaði Ben Henderson niður.

Fjórir sigrar í röð á Joe Lauzon (rothögg í 1. lotu eftir hausspark), Donald Cerrone (tæknilegt rothögg eftir spark í skrokkinn), Ben Henderson („armbar“ í lotu af bakinu) og Gilbert Melendez („guillotine“ í 3. lotu) komu honum svo sannarlega á kortið. Meiðsli hægðu þó verulega á upprisu hans en Pettis var einfaldlega maðurinn í léttvigtinni.

Hann var framan á Wheaties morgunkorninu og virtist ætla að verða risastjarna. Þrjú töp í röð hafa hins vegar kippt honum niður. Töpin hafa vissulega verið gegn sterkum andstæðingum eins og Rafael dos Anjos, Eddie Alvarez og Edson Barboza en fáir hefðu trúað því fyrir rúmum 18 mánuðum síðan að Pettis myndi tapa þremur bardögum í röð.

Pettis kaus að fara niður í fjaðurvigtina í leit að lausnum og er spurning hvort það eigi eftir að koma ferlinum í rétt horf. Hann mætir Charles Oliveira í kvöld og er það snúinn bardagi. Oliveira er ekki stærsta nafnið en er með 13 sigra eftir uppgjafartök og ansi hættulegur. Pettis hefur aldrei verið kláraður en þarf að fara varlega gegn Oliveira í kvöld.

Tölfræðin hefur sýnt að breyting á þyngdarflokki er sjaldnast lausnin. Bloody Elbow gerði skemmtilega úttekt á árangri bardagamanna eftir að hafa farið upp eða niður um þyngdarflokk í UFC. Aðeins 20 af 107 bardagamönnum reyndust vera með betri árangur í nýja þyngdarflokkinum.

Anthony Pettis hefur svo sem aldrei verið neinn risi í léttvigtinni en stærðin virtist ekki vera stærsta vandamálið hans í töpunum þremur. Í undanförnum bardögum er eins og hann hafi ekki verið hann sjálfur og aldrei náð að finna taktinn almennilega. Kannski hefur hann ekki náð að jafna sig á tapinu gegn Rafael dos Anjos sem braut hann í fimm lotu bardaga? Kannski er þessi breyting alveg óháð þyngd og einfaldlega ný byrjun og smá spark í rassinn fyrir hann?

Það verður að minnsta kosti afar áhugavert að sjá hvort að þetta reynist vera rétta skrefið á ferli Anthony Pettis. Hugsanlega fáum við einhver svör í kvöld í bardaganum gegn Charles Oliveira.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular