spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentEr Greg Hardy tilbúinn í topp 10 andstæðing?

Er Greg Hardy tilbúinn í topp 10 andstæðing?

Greg Hardy mætir Alexander Volkov á UFC bardagakvöldinu í Moskvu á laugardaginn. Þetta verður lang erfiðasta prófraun Hardy hingað til og spurning hvort hann sé tilbúinn.

Ferill Greg Hardy hefur verið skrítinn í UFC. Hardy er afar umdeildur enda með sína vafasömu fortíð og er baulað á hann hvar sem hann berst. Hardy hefur tekið fjóra bardaga í UFC, alla á þessu ári og hafa andstæðingarnir verið misjafnir. Hardy var dæmdur úr leik í sínum fyrsta bardaga í UFC, vann tvo bardaga með tæknilegu rothöggi og vann sinn síðasta bardaga eftir dómaraákvörðun en sá bardagi var síðar dæmdur ógildur.

Þeir Allen Crowder, Dmitry Smolyakov, Juan Adams og Ben Sosoli eru á allt öðrum stað heldur en Alexander Volkov. Samanlagt bardagaskor þeirra í UFC er 2-7 (og einn bardagi dæmdur ógildur) á meðan Volkov er 3-1 í UFC (30-7 samtals) og er í 7. sæti á styrkleikalista UFC í þungavigtinni.

Hardy hefur hingað til fengið andstæðinga sem voru sérstaklega valdir til að henta reynsluleysi Hardy en núna fær hann loksins alvöru andstæðing. Volkov hefur verið flottur í UFC en stór mistök gegn Derrick Lewis voru dýrkeypt. Volkov var á góðri leið með að sigra Derrick Lewis í október í fyrra en þegar 10 sekúndur voru eftir lét hann Lewis steinrota sig með villtri yfirhandar hægri.

Hardy getur hent í bombur og spurning hvort hann geti leikið sama leik og Lewis gerði í fyrra. Hardy barðist síðast þann 18. október og munu því aðeins 22 dagar líða á milli bardaga hans að þessu sinni. Junior dos Santos átti upphaflega að mæta Volkov en eftir slæma sýkingu þurfti sá brasilíski að draga sig úr bardaganum.

Síðasti bardagi Hardy var dæmdur ógildur þar sem Hardy notaði úðatæki áður en 3. lota hófst en slíkt er bannað. Hardy var því ólmur að komast aftur í búrið til að leiðrétta mistökin og fær í leiðinni tækifæri á að mæta topp 10 andstæðingi. Þess má geta að Hardy má auðvitað ekki nota úðatæki í bardaganum um helgina.

Það er mikill munur á að mæta Ben Sosoli (nýliði í UFC), Dmitry Smolyakov (aldrei unnið bardaga í UFC), Allen Crowder (einn sigur í UFC) og svo Alexander Volkov. Hardy segist vera einn af þeim bestu í heimi og fær nú tækifæri gegn topp 10 þungavigtarmanni í heiminum.

Bardaginn fer fram á UFC bardagakvöldinu í Rússlandi á föstudaginn og verður næstsíðasti bardagi kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular