Thursday, March 28, 2024
HomeErlentFedor berst tilgangslausan bardaga í kvöld

Fedor berst tilgangslausan bardaga í kvöld

fedor maldonadoEinn besti bardagamaður allra tíma, Fedor Emelianenko, mætir Fabio Maldonado í Rússlandi. Bardaginn er enn einn tilgangslausi bardaginn hjá þessari goðsögn.

Bardaginn fer fram í Rússlandi í kvöld og verður sýndur beint á Fight Pass rás UFC. Fyrsti bardaginn á bardagakvöldinu hefst kl 15 á Fight Pass.

Goðsögnin Fedor hefur nú unnið fjóra bardaga í röð eftir þriggja bardaga taphrynu í Strikeforce. Fedor lagði hanskana á hilluna árið 2012 en snéri aftur í fyrra. Fedor var í viðræðum við UFC og var sagður hafa fengið afar gott tilboð frá UFC. Fedor hafnaði hins vegar boðinu og gerði samning við Rizin FF í Japan. Á gamlársdag í fyrra barðist hann við hinn óreynda Jaideep Singh sem hann sigraði mjög auðveldlega.

Nú mun hann berjast aftur í kvöld og hefur bardaginn vakið litla athygli. Að þessu sinni mætir Fedor öllu reyndari andstæðingi, Fabio Maldonado, en bardaginn ætti að vera nokkuð öruggur sigur fyrir Fedor. Maldonado var látinn fara úr UFC fyrir skömmu eftir tvö töp í röð.

Maldonado hefur alla tíð barist í léttþungavigt (fyrir utan 30 sekúndna tap gegn Stipe Miocic í þungavigt) og er tiltölulega lítill fyrir léttþungavigtina. Núna berst hann aftur í þungavigt og það gegn einum besta þungavigtarmanni sögunnar.

Fyrir Maldonado er þetta frábært tækifæri. „Hann er auðvitað sigurstranglegri á pappírum. Hann er 99% að fara að vinna, en í hjarta mínu er þetta 50/50 bardagi,“ sagði Maldonado við MMA Junkie. Fyrir hann er þetta eins og að vera körfuboltamaður og fá að spila við Michael Jordan.

Það er dálítið skrítið að Fedor sé að mæta litlum léttþungavigtarmanni sem var nýlega látinn fara úr UFC. Fedor fékk lista af nöfnum og gat hann valið sinn næsta andstæðing og endaði á að velja Maldonado. Hverjir voru eiginlega hinir á listanum ef þetta var sterkasti andstæðingurinn?

Þetta er langt í frá eins slæmt eins og viðureign Fedor við Jaideep Singh en engu að síður tilgangslaus bardagi. Þessi bardagi er ekki að fara að gera neitt fyrir ferilinn nema bæta enn einum sigri við nú þegar glæsilega ferilskrá. En kannski mun þetta verða fimmta tapið hins 39 ára Fedor?

Fyrr í vikunni var Fedor í The MMA Hour hjá Ariel Helwani þar sem hann sagðist vera mjög nálægt því að semja við UFC. Þetta höfum við margoft heyrt áður en aldrei hefur Fedor samið við UFC. Eftir þennan bardaga verður hann samningslaus aftur og verður auðvitað áhugavert að sjá hvað hann gerir næst. Ekki samt reikna með því að hann semji við UFC.

Ferill Fedor Emelianenko hefur verið frábær en líka mjög skrítinn. Það er eiginlega hálf sorglegt að sjá hann berjast við andstæðinga sem standa honum ekki jafnfætis. Kannski er það ekki við hann að sakast. Kannski vill hann bara berjast og er sama hver andstæðingurinn er.

Hvort sem hann vinnur auðveldlega í kvöld eða tapar mun hann alltaf verða einn besti bardagamaður allra tíma. Og við munum alltaf fylgjast með hans bardögum, sama hver andstæðingurinn verður.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular