spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFedor Emelianenko berst í Rizin FF á morgun

Fedor Emelianenko berst í Rizin FF á morgun

rizin logoAnnað bardagakvöld Rizin FF fer fram á morgun. Þar munu stór nöfn eins og Fedor Emelianenko, Gabi Garcia, Kron Gracie, King Mo og Bob Sapp berjast.

Rizin FF eru ný japönsk bardagasamtök en forseti þeirra er sá sami og stjórnaði Pride hér áður fyrr. Fyrsta bardagakvöldið þeirra fór fram í gær og það næsta á morgun, gamlársdag.

Flestir eru eflaust spenntastir fyrir því að sjá Fedor Emelianenko berjast aftur. Bardagaaðdáendur urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar ljóst var að mótherji hans á morgun er Jaideep Singh sem er aðeins búinn með tvo bardaga í MMA. Hann er þó með mikla reynslu úr sparkboxi.

Margir glímuáhugamenn eru þó spenntir fyrir að sjá þau Gabi Garcia og Kron Gracie keppa (ekki gegn hvor öðrum). Gabi Garcia er ein sigursælasta glímukona allra tíma og berst sinn fyrsta MMA bardaga á morgun.

Hún mætir Seini ‘Lei’d Tapa’ Draughn sem kemur úr fjölbragðaglímunni en þetta verður einnig fyrsti bardagi hennar í MMA. Bardaginn fer fram í svo kölluðum opnum þyngdarflokki en Garcia vigtaði sig inn 98 kg í morgun á meðan Draughn var 91,3 kg.

Kron Gracie sigraði sinn fyrsta MMA bardaga á þorláksmessu í fyrra. Hann er sonur hins goðsagnarkennda Rickson Gracie og kemur eins og nafnið gefur til kynna úr hinni goðsagnarkenndu Gracie ætt. Kron Gracie er margverðlaunaður í BJJ heiminum og sigraði sinn fyrsta bardaga með „armbar“ eftir aðeins eina mínútu.

Andstæðingur hans kemur einnig úr sterkri glímuætt. Asen Yamamoto hefur æft ólympíska glímu frá fjögurra ára aldri en nánast öll fjölskyldan hans er margverðlaunuð í íþróttinni. Yamamoto er frændi Kid Yamamoto (goðsögn í MMA í Japan) og stefnir á að keppa á Ólympíuleikunum á næsta ári í glímunni. Það verður því áhugavert að sjá þessa tvo glímusnillinga eigast við.

8-manna útsláttarmót Rizin í þungavigt hófst í gær og klárast á morgun með undanúrslitum og úrslitunum. King Mo mætir Teodoras Aukstuolis og Vadim Nemkov mætir Jiri Prochazka. Þrátt fyrir allt grínið í kringum Rizin FF má segja að þetta mót sé það sem skiptir mestu máli annað kvöld. Fyrir utan King Mo eru þetta ekki þekktustu nöfnin en allir sýndu þeir flott tilþrif í gær og verður athyglisvert að sjá bardaga þeirra á morgun.

Á bardagakvöldinu eru líka nokkrir furðulegir bardagar og karakterar. Bob Sapp mætir Taro Akebono sem er fyrrum súmóglímukappi. Bardaginn er ekki beint MMA bardagi heldur háður undir sérstökum ShootBoxing reglum. Þeir mættust áður í sparkboxi á gamlárskvöldi árið 2003 og var gríðarlegt áhorf á bardagann.

Bob Sapp hefur sigrað aðeins tvo af síðustu 30 bardögum sínum en gæti unnið á morgun þar sem Akebono hefur unnið aðeins einn af 13 bardögum sínum í MMA eða sparkboxi. Hinn 200 kg Akebono mætti Royce Gracie á sínum tíma og tapaði eftir uppgjafartak. Þetta er svona ekta bardagi sem myndi bara fram í Japan.

bob sapp Taro akebono
Úr fyrri bardaga þeirra Sapp og Akebono.

Sapp og Akebono gerðu sitt besta til að þykjast vera reiðir í vigtuninni í gær.

Yuichiro Nagashima er nafn sem eflaust ekki margir þekkja. Hann er 4-2 í MMA en fatnaður hans vekur oft athygli. Hér að neðan má sjá mynd af honum á heimasíðu Rizin FF.

Yuichiro-Nagashima

Nagashima er þó ekki alslæmur bardagamaður og rotaði Shinya Aoki á sínum tíma í furðulegum sýningarbardaga sem var þó alvöru bardagi. Hann mætir Andy Souwer sem er frábær sparkboxari og gæti þetta orðið mjög skemmtilegur bardagi. Bardaginn er ekki beint MMA bardagi heldur undir sérstökum Shootboxing reglum.

Kappinn mætti að sjálfsögðu í athyglisverðum klæðnaði í gær í vigtuninni.

Fyrsti bardaginn á bardagakvöldinu hefst kl 6 í fyrramálið enda fer bardagakvöldið fram í Japan.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular