George Sullivan varð núna á dögunum fyrsti bardagamaðurinn til þess að brjóta reglur USADA tvívegis. Sullivan er nú þegar í banni en féll nýlega á lyfjaprófi.
USADA tók við lyfjaeftirliti í UFC sumarið 2015 og er þetta því vafasamt met að eiga fyrir Sullivan.
Sullivan, sem berst í veltivigt, hefur undanfarið verið í ársbanni frá USADA. Sullivan féll ekki á lyfjaprófi í fyrra skiptið heldur viðurkenndi inntöku á vöru sem innihélt bannaða efnið IGF-1 (Insulin-like Growth Factor-1). Bannið átti að renna út þann 31. janúar 2017 og Sullivan var búinn að fá staðfestan bardaga gegn Randy Brown á UFC 208 sem fer fram í febrúar.
Sullivan hefur núna hins vegar fallið á lyfjaprófi sem tekið var þann 14. janúar. Sullivan sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann segir þetta allt vera misskilning. Sullivan byrjaði að taka frjósemistöflur fyrir þremur vikum síðan í von um að gera eiginkonu sína ólétta. Þetta gerði hann í samráði við lækni og hefur hann nú afhent USADA öll nauðsynleg gögn.
Þetta mál er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Sullivan er því væntanlega kominn í bann frá keppni á sama tíma og hann er að ljúka öðru banni. Þar sem að þetta er hans annað brot innan USADA er gert ráð fyrir því, komi ekkert annað í ljós, að hann verði dæmdur í að minnsta í tveggja ára bann.
Hér má sjá yfirlýsinguna frá Sullivan: