Hnefaleikasamband Íslands sendir fjóra einstaklinga út til Noregs á Norðurlandameistaramótið í hnefaleikum. Þetta er stórt skref fyrir okkar keppendur enda eru tveir keppendur að færa sig upp í elite flokk eftir að hafa náð mjög góðum árangri í yngri flokkunum. Keppnisliðið skartar þeim Eriku Nótt Einarsdóttur, Nóel Frey, Björn Jónatan og Rónald Bjarka.
Ferðalangarnir halda út fimmtudaginn 13. Mars og ná eiga von á fyrstu viðureignunum um helgina.
Norðurlandameistarinn okkar Erika Nótt Einarsdóttir kemur til með að færa sig upp í elite-flokk þar sem hún kemst í snertingu við nýjar stelpur og fær tækifæri til að máta sína hæfileika við þær bestu á Norðurlöndunum.
Eríka Nótt hefur dvalið erlendis upp á síðkastið og ætti að mæta hrikalega vel undirbúin í mótið eftir stífar æfingabúðir í þremur löndum. Erika hóf undirbúninginn í CIK, Danmörku, þar sem hún einbeitti sér mikið að tæknilegri getu, áður en hún færði sig til Edenderry í Írlandi. Að eigin sögn er bærinn lítill og gott sem ekkert annað að gera í bænum en að boxa, sem hún gerði 12 sinnum í viku og svaf í hnefaleikastöðinni. Þetta hefur verið mikilvæg reynsla fyrir Norðurlandameistarann okkar sem hefur fengið tækifæri til að sparra við stelpur á mjög háu stigi. Erika lauk svo undirbúningnum í Las Vegas en er núna komin aftur til Evrópu eftir dvölina sína þar.

Nóel Freyr er einnig að færa sig upp í Elite-flokk en hann stimplaði sig sterkt inn í flokkinn hérna heima með einróma dómaraákvörðun gegn Viktori Zoega á öðrum degi Vorbikarmótsins. Nóel hefur æft heima í undirbúningnum fyrir norðurlandameistaramótið en hann vann auðvitað til silfurverðlauna á norðurlandameistaramótinu síðast. Nóel hefur sýnt fram á miklar bætingar síðan þá og verður að teljast spennandi að sjá hvernig honum mun ganga í mjög sterkum flokki á erlendri grundu.
Björn Jónatan keppir á eldra ári í u19 flokki. Skagamaðurinn efnilegi tók sér frí frá bikarmótaröðinni í upphafi árs vegna meiðsla og ákvað að einbeita sér að Norðurlandameistaramótinu í stað þess að freista gæfunnar og eiga möguleika á því að gera meiðslin verri. Þó að hans hafi verið sárt saknað á bikarmótinu verður mjög spennandi og fróðlegt að sjá Björn á Norðurlandameistaramótinu þar sem hann hefur einbeitt sér að mótinu í langan tíma og spennandi að sjá hvað hann uppsker í Noregi þann 15. mars.
Rónald Bjarki er fjórði og síðasti Íslendingurinn sem við sendum út. Hann keppir í U19 ára flokki á sínu fyrsta Norðurlandameistaramóti. Rónald er ekki óvanur keppni á erlendri grundu. Hann vann til gullverðlauna á King of the Ring í nóvember í fyrra. Rónald Bjarki stöðvaði fyrri andstæðinginn sinn á mótinu og sigraði úrslitaviðureignina með einróma dómaraákvörðun. Frammistaða Rónalds landaði fyrstu gullverðlaunum Hnefaleikafélags Reykjavíkur á þessu feikisterka móti.
Rónald Bjarki var tilbúinn í slaginn á bikarmótinu sem var að klárast en var óheppinn að fá ekki bardaga og þurfti að sætta sig við sæti á áhorfendapalli. Vonandi er litla ljónið þeim mun hungraðra og tilbúið til þess að berjast sína bestu bardaga um helgina.
