Floyd Mayweather býst við að fá um það bil 350 milljónir dollara fyrir bardagann gegn Conor McGregor. Þetta lét hann hafa eftir sér í þætti Jimmy Kimmel í vikunni.
Floyd ‘Money’ Mayweather mætir Conor McGregor í Las Vegas þann 26. ágúst. Hinn fertugi Floyd (49-0) er að snúa aftur í hringinn eftir tveggja ára pásu en hann lagði hanskana á hilluna í september 2015.
Floyd hefði sennilega aldrei snúið aftur í hringinn nema um væri að ræða risabardaga en sú verður raunin þegar hann mætir Conor McGregor. Floyd býst við að fá 350 milljónir dollara eða tæpa 38 milljarða íslenskra króna fyrir bardagann.
Margir aðdáendur muna eflaust eftir tíðindalitlum bardaga Floyd gegn Manny Pacquiao. Floyd sagðist hins vegar skulda aðdáendum alvöru skemmtun og ætlar að sækja strax gegn Conor í stað þess að sitja til baka og vera varkár. Að hans sögn eiga aðdáendur það skilið en það verður svo að koma í ljós þann 26. ágúst hvort hann standi við gefin loforð.
Floyd er talsvert sigurstranglegri hjá veðbönkum en Floyd hvatti Kimmel til að veðja á sig. Ef Floyd tapar mun hann endurgjalda Kimmel upphæðina sem hann lagði undir. Gott veðmál þar á ferð fyrir Kimmel.
Floyd heldur auðvitað eftirpartý eftir bardagann og mun það fara fram á nektardansstað hans, Girl Colletion en Floyd keypti staðinn nýverið. „Ég fór í nektardansbransann þar sem ég veit að brjóst, píkur, tónlist og áfengi fer aldrei úr tísku,“ sagði Floyd um fjárfestinguna.