Mánudagsmorgun bárust þau óvæntu tíðindi að Floyd Mayweather myndi taka bardaga í japönsku bardagasamtökunum Rizin. Nú hefur hann hins vegar lýst því yfir að hann hafi aldrei samþykkt formlegan bardaga og þetta sé allt byggt á misskilningi.
Rizin hélt blaðamannafund á mánudaginn í Tokyo þar sem tilkynnt var um fyrirhugaðan bardaga Floyd Mayweather í Rizin gegn Tenshin Nasukawa. Floyd, Nobuyuki Sakakibara (forseti Rizin), Tenshin Nasukawa og fleiri voru viðstaddir blaðamannafundinn en á þeim tíma vissi enginn hvers konar bardaga var um að ræða eða í hvaða þyngdarflokki. Bardaginn átti að fara fram á gamlárskvöldi í Japan.
Nú virðist þetta hafa allt verið einn misskilningur en Floyd sagðist aðeins hafa samþykkt að taka einn sýningabardaga sem átti einungis að eiga sér stað fyrir framan nokkra vel auðuga áhorfendur fyrir stóra summu. Bardagann átti ekki að sýna opinberlega eða vera einhver formlegur bardagi.
Floyd segir að hann hafi lagt hanskana á hilluna og þéni ansi mikið fyrir að koma fram og stöku sinnum taka þátt í litlum sýningum.
Fyrir blaðamannafundinn hafði hann birt mynd af sér í Rizin hönskum en nú hefur hann fjarlægt þá mynd af Instagram síðu sinni. Rizin birti svo stiklu fyrir bardaga Floyd og Nasukawa en allt virðist þetta vera byggt á misskilningi miðað við orð Floyd í dag.