Sunday, May 5, 2024
HomeErlentFordómafullur Strickland gegn viðkunnalegum Du Plessis. Spáum í bardagann.

Fordómafullur Strickland gegn viðkunnalegum Du Plessis. Spáum í bardagann.

Sean Strickland var ansi hress á blaðamannafundi fyrir UFC 297 kvöldið. Hann var óhefluð útgáfa af sjálfum sér og lenti þar að auki í útistöðum við kanadískan blaðamann. Sean rakkaði niður forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, ásamt því að tala niður samkynhneigða og transfólk. Á sama tíma var Du Plessis bara ansi hress – Ekkert ves. 

Það þarf ekki að spyrja að því, en Sean Strickland hefur ekki unnið sér til vinsælda í Kanada í þessari ferð og eftir ummælin hans á fundindinum fór kanadíska twitter samfélagið af stað og kallaði eftir því að Sean yrði sviftur titlinum, en það fór ekki langt.

Á sama tíma hefur Dricus Du Plessis fengið góðan tíma í sviðsljósinu og sýnt að hann er einn viðkunnalegasti maðurinn í millivigtinni. Du Plessis byrjaði bardaga upphitunina á því að skjóta á Sean Stricland og æskuna hans. En eins og alþjóð veit í dag, þá varð Strickland fyrir hrottalegu andlegu- og líkamlegu ofbeldi af hendi föður síns. Eitthvað sem að Du Plessis nýtti sér til að pirra Strickland, sem brást ílla við og hótaði öllu íllu í persónulegum skilaboðum til Du Plessis á Instagram. En þeir eru núna búnir að ná sáttum og allt drama milli þeirra er líklega búið og báðir geta horft til bardagans. Du Plessis sagði eftir ummælin um æsku Stricklands að hann hafi haldið, miðað við hvernig Sean talar, að það væru engin takmörk á því hvað mæti nota gegn andstæðingum sínum. En þeir fundu svo línuna saman.

Fyrr í vikunni töldu veðbankar að Sean Strickland væri líklegri til að vinna bardagann og Du Plessis var titlaður underdog. Það hefur hinsvegar breyst núna og 18 klst fyrir bardagann eru stuðlarnir alveg slétt 50/50. 

Vigtunin og face off milli þeirra var áhugavert. Strickland leit frekar ílla út eftir þyngdarskurðinn og það sást mjög greinilega á honum að hann var veikburða en Du Plessis var einmitt andstæðan við það. Á sama tíma virtist Sean Strickland ekki vilja taka almenniegt face off við Du Plessis. Strickland byrjaði á því að standa sirka 7 metra í burtu frá Dricus og færði sig svo hægt og bítandi nær og nær. Kannski er þetta tákn um lélegt andlegt ástand hjá Sean Strickland, en Du Plessis var hálf brjálaður yfir þessari uppákomu hjá Strickland. Á síðustu stundu fyrir bardagann tel ég Dricus Du Plessis líta betur út líkamlega og virðist hann betur stemmdur andlega einnig.  

Frá bardaga sjónarmiði er frekar erfitt að spá fyrir hvernig þessi bardagi mun þróast. Báðir bardagamenn eru líklegir til þess að vilja standa og skiptast á höggum. Sean og Dricus eru skráðir jafn háir og með jafn langan faðm. Eina sem skilur þá að er að Dricus er 2 árum yngri. Þannig það er ekki að finna neina sérstaka yfirhönd í líkamlegu atgervi.  

Sean og Dricus eru báðir með sérstakan bardagastíl standandi. Sean er með sitt fræga philly shell sem hann hefur tileinkað sér með mjög góðum árangri. Joe Rogan minntist á það í hlaðvarpi að samkvæmt UFC þá fær Sean Strickland á sig fæst högg per mínútu þegar hann sparrar samanborið við aðra UFC bardagamenn. Sean Strickland heldur endalausri pressu á andstæðingunum sínum, lætur þá slá vindhögg í gegnum flotta varnatilburði og er djöfull höggþungur þegar honum langar til. Þar að auki er Sean vel sjóaður í glímu og Bjj, þó hann hafi hingað til ekki þurft að nýta sér þá hæfileika í UFC.  

Dricus Du Plessis hefur alltaf verið vandræðalegur bardagamaður. Hann gerir vel í að koma andstæðingunum sínum að óvart með höggum sem koma úr óvæntum áttum. Dricus hefur hingað til verið þekktur fyrir að brenna út á þoli snemma í bardögum með þeim afleyðingum að munnurinn opnast og hreyfingarnar verða spastískari. En það hefur ekki komið að sök og hefur Dricus sótt hvern sigurinn á eftir öðrum. Vandamálið með þolið var rakið til þess að Dricus væri með skakt nefn og að önnur nösin væri alveg lokuð, þar af leiðandi fengi hann ekki nægilegt súrefni. Dricus er búinn að fara í aðgerð og láta laga nefið á sér og frumsýndi hann nýja nefið í bardaganum gegn Robert Whittaker. Hann virtist ekki nálagt því að brenna út á þoli í bardaganum og kláraði bardagann í 2. lotu með höggum. 

Styrkleikarnir hans Dricus er knockout power – hann hefur klárað 5 af 6 bardögum sínum í UFC. Þar síðast barðist hann við Derek Brunson sem endaði á því að hornið kasstaði inn handklæðinu. En hvernig mun Dricus ganga gegn manni sem lætur ekki slá sig? Strickland étur ekki mikið af höggum og það er erfitt að ná honum. Sean hefur líka sýnt að hann getur barist 25 mínútur eins og ekkert sér svo lengi sem hann fær að spila sinn leik. Bardaginn mun líklega þróast Sean Strickland í hag ef að honum tekst að láta Dricus slá kröftug vindhögg og raunprófa þolið hans í 4-5 lotu. Á hinn boginn, ef að Dricus nær Sean með góðu höggi, þá gæti þetta verið búið fyrir Strickland. Alex Pereira tókst að rota Strickland þegar þeir mættust á UFC 276.

Nina Drama átti líklega lang skemmtilegustu viðtölin við bæði Strickland og Du Plessis. Fyrir þá sem vilja hita almennilega upp fyrir kvöldið, þá skil ég bæði viðtölin eftir hérna að neðan.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular