Sunna Rannveig Davíðsdóttir hefur farið frábærlega af stað í Invicta bardagasamtökunum. Forseti bardagasamtakanna, Shannon Knapp, hefur miklar mætur á Sunnu og telur að hún geti farið alla leið.
Sunna Rannveig sigraði Kelly D’Angelo á Invicta FC 24 bardagakvöldinu fyrr í mánuðinum. Hún er núna 3-0 í Invicta og hefur hún tvisvar í röð fengið bónus fyrir besta bardaga kvöldsins.
Sunna er farin að vekja á sér meiri athygli með hverjum sigrinum og segir Shannon Knapp að Sunna sé nafn sem allir ættu að fylgjast með.
„Sunna Davíðsdóttir heldur áfram að vekja aðdáun allra með frammistöðum hennar hér í Invicta. Sunna er íþróttamaður sem strávigtin þarf að fylgjast með og hafa auga með. Sunna hefur hæfileikana og drifkraftinn til að komast alla leið á toppinn í þyngdarflokknum. Ég hlakka til að fylgjast með henni vaxa og sjá hana þróast,“ segir Knapp við vef IMMAF.
Sunna keppir í 115 punda strávigt kvenna í Invicta og verður vonandi ekki langt þangað til við sjáum hana berjast aftur.