Þungavigtarskrímslið Francis Ngannou mætir Alistair Overeem á UFC 218 þann 2. desember. Talið er að bardaginn verði næstsíðasti bardagi kvöldsins á UFC 218.
Þetta er afar mikilvægur bardagi fyrir þungavigtina en sigurvegarinn ætti að vera búinn að gera nóg til að fá titilbardaga. Ríkjandi meistari, Stipe Miocic, hefur átt í samningadeilum við UFC og óvíst hvenær hann muni berjast næst.
Francis Ngannou hefur hreinlega valtað yfir alla andstæðinga sína í UFC til þessa. Hann er 5-0 í UFC með fjögur rothögg og einn sigur eftir uppgjafartak. Ngannou átti að mæta Junior dos Santos á UFC 215 fyrr í mánuðinum en tveimur vikum fyrir bardagann féll dos Santos á lyfjaprófi og var bardaginn felldur niður.
Ngannou hefur ekkert barist síðan hann rotaði Andrei Arlovski í janúar. Síðan þá hefur hann flutt aðsetur sitt frá Frakklandi til Las Vegas og æfir hann þar í dag.
Alistair Overeem hefur unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum. Eina tapið var gegn Stipe Miocic en síðast sáum við Overeem vinna Fabricio Werdum í júlí. Þar áður rotaði hann Mark Hunt en Overeem hefur unnið tvo bardaga í röð eftir að hann tapaði fyrir Miocic.
Bardagakvöldið fer fram 2. desember í Detriot en óvíst er hver aðalbardagi kvöldsins verður. Titilbardagi Max Holloway og Frankie Edgar hefur verið nefndur til sögunnar en hefur ekki verið staðfest.
European heavyweight showdown!! @AlistairOvereem vs. @Francis_Ngannou is official for #UFC218! pic.twitter.com/EOwSklZ7FB
— UFC Europe (@UFCEurope) September 28, 2017