0

Francis Ngannou mætir Alistair Overeem á UFC 218

Þungavigtarskrímslið Francis Ngannou mætir Alistair Overeem á UFC 218 þann 2. desember. Talið er að bardaginn verði næstsíðasti bardagi kvöldsins á UFC 218.

Þetta er afar mikilvægur bardagi fyrir þungavigtina en sigurvegarinn ætti að vera búinn að gera nóg til að fá titilbardaga. Ríkjandi meistari, Stipe Miocic, hefur átt í samningadeilum við UFC og óvíst hvenær hann muni berjast næst.

Francis Ngannou hefur hreinlega valtað yfir alla andstæðinga sína í UFC til þessa. Hann er 5-0 í UFC með fjögur rothögg og einn sigur eftir uppgjafartak. Ngannou átti að mæta Junior dos Santos á UFC 215 fyrr í mánuðinum en tveimur vikum fyrir bardagann féll dos Santos á lyfjaprófi og var bardaginn felldur niður.

Ngannou hefur ekkert barist síðan hann rotaði Andrei Arlovski í janúar. Síðan þá hefur hann flutt aðsetur sitt frá Frakklandi til Las Vegas og æfir hann þar í dag.

Alistair Overeem hefur unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum. Eina tapið var gegn Stipe Miocic en síðast sáum við Overeem vinna Fabricio Werdum í júlí. Þar áður rotaði hann Mark Hunt en Overeem hefur unnið tvo bardaga í röð eftir að hann tapaði fyrir Miocic.

Bardagakvöldið fer fram 2. desember í Detriot en óvíst er hver aðalbardagi kvöldsins verður. Titilbardagi Max Holloway og Frankie Edgar hefur verið nefndur til sögunnar en hefur ekki verið staðfest.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.