spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFrancis Ngannou þarf nauðsynlega á sigri að halda um helgina

Francis Ngannou þarf nauðsynlega á sigri að halda um helgina

Francis Ngannou mætir Curtis Blaydes um helgina á UFC bardagakvöldinu í Kína. Það er ekki langt síðan Ngannou var á barmi þess að verða stórstjarna en nú þarf hann nauðsynlega á sigri að halda.

2018 hefur verið erfitt ár fyrir Ngannou en fram að því hafði í raun allt gengið honum í haginn. Í ársbyrjun 2018 var hann sagður vera næsta ofurstjarnan í UFC, ógnvekjandi rotari sem fangaði athygli áhorfenda. Hann hafði þá unnið alla sex bardaga sína í UFC, alla með rothöggi og var á hraðri uppleið. Ngannou fékk mikla athygli í fjölmiðlum, fékk stóra styrktarsamninga og benti allt til þess að hann yrði stjarnan í þungavigt UFC sem Dana White hafði svo lengi beðið eftir. Tyson þungavigtarinnar var sagt enda var hann með ótrúlegan höggþunga og var að læra hratt.

Hann barðist um titilinn þann 20. janúar 2018 en síðan þá hefur hann dálítið horfið. Miocic jarðaði hann og var Ngannou örmagna snemma í bardaganum en tókst að lifa af loturnar fimm. Tap í stórum titilbardaga en svo sem enginn heimsendir en þarna komu í ljós holurnar í leik Ngannou – nokkuð sem er auðveldlega hægt að laga.

Í júlí átti hann hins vegar hræðilega frammistöðu gegn Derrick Lewis í einum versta bardaga í sögu UFC. Nákvæmlega ekkert gerðist yfir þessa 15 mínútna störukeppni og þurfti dómarinn Herb Dean að biðja menn um að vinsamlegast gera meira. Ngannou tapaði eftir dómaraákvörðun og leit út fyrir að vera hræddur í bardaganum. Ngannou sagðist hafa tekið óttann með sér úr Miocic bardaganum og náði aðeins að hitta 11 höggum yfir 15 mínútur gegn Lewis.

Nú snýr hann aftur í búrið um helgina og það á litlu bardagakvöldi í Kína. Maðurinn sem átti að vera næsta stóra stjarnan er bara að berjast á Fight Pass bardagakvöldi í Kína. Andstæðingurinn er Curtis Blaydes en Ngannou sigraði Blaydes árið 2016 eftir að læknirinn þurfti að stöðva bardagann eftir 2. lotu. Áður en Ngannou mætti Miocic var Blaydes hans erfiðasti andstæðingur.

Á meðan Ngannou hefur farið í titilbardaga hefur Blaydes hægt og rólega unnið alla bardaga sína síðan hann tapaði fyrir Ngannou. Blaydes hefur á þessu ári unnið þá Mark Hunt og Alistair Overeem og er núna sigurstranglegri hjá veðbönkum.

Ngannou gæti því verið með þrjú töp í röð eftir helgina sem er ansi langt frá því að vera eitthvað sem ofurstjörnur eiga að gera. Við höfum samt áður séð að hlutirnir eru ansi fljótir að breytast í MMA. Ef hann finnur sama takt aftur og í fyrra og rotar Blaydes er hann kominn aftur í umræðuna á jákvæðum nótum. Einn sigur eftir það og hann er kominn með titilbardaga.

Til þess að komast aftur þangað þarf hann að geta klárað Blaydes og til þess að geta það þarf hann að geta sýnt betri felluvörn en hann gerði gegn Miocic. Blaydes hefur bara bætt sig síðan hann mætti Ngannou síðast og gæti þessi bardagi sagt okkur mikið um hvar Ngannou stendur í dag. Það mun mikið mæða á felluvörn Ngannou enda verður ekki auðvelt fyrir Ngannou að klára Blaydes. Ngannou þarf nauðsynlega að ná í sigur á laugardaginn til að sýna aðdáendum hvers vegna hæpið var svo mikið á sínum tíma.

Bardaginn fer fram á laugardaginn í Kína og hefst aðalhluti bardagakvöldsins kl. 11:30 á íslenskum tíma.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular